Sveiflur vísitalna í gær

29 Sep


Seventís sýrurokks-vísitalan (SEVSÝR) rauk upp um heil 70% þegar ég hlustaði á hljómsveitina Módulo 1000 frá Brasilíu. Platan Não Fale com Paredes – translate.google.com þýðir það sem „Ekki tala við Walls“ (takk Google translate!) – er frá 1970 og algjör snilld. Ég mælist til þess að Zakarías Gunnarsson og félagar í Caterpillarman tékki á þessu bandi og líka strákarnir í hippasýrubandinu Eldberg. Titillagið er til að mynda sallafínt og svo eru þeir með lag sem heitir Animalia, alveg eins og HAM. Það lag er reyndar eitt af mörgum örstuttum á plötunni og er meira svona með til að búa til heild. Ég mæli frekar með fyrsta laginu, Turpe Est Sine Crine Caput, eða „Án hára það er skömm kafli“, eins og google þýðir það (sé þetta þýtt úr latínu) eða Metro Mental.

Hvenær kemur annars nýja HAM platan á vinýl?-vísitalan (HAMÁLP) stendur í stað því ég veit ekkert hvenær vinýllinn kemur.

Saktmóðígur halda útgáfutónleika-vísitalan (SAKTÚT) hefur aldrei verið hærri (99.9%) enda fara tónleikarnir fram í kvöld á Gauknum. Otto Katz Orchestra, Dys og Jakob Veigar sjá um hitun.

Rowan Atkinson-vísitalan (ROWAT) heldur áfram að lækka og hefur aldrei verið lægri, 91.15% undir markaðsvirði þegar hann var í Blackadder og 89.05% undir Mr. Bean þáttunum. Sá Johnny English Reborn sem er ófyndið drasl og Sigur Rósaraðdáandinn Gillian X-files gerir ekkert fyrir hana. Ein stjarna. Tveir átta ára strákar sem ég fór með skemmtu sér hins vegar ágætlega.

Fjölskyldan saman á sirkus-visitalan (FJÖSIR) hækkaði verulega í gær (78.8%) þegar ég tryggði mér og fjölskyldunni miða á Sirkus Íslands Kynnir Ö FAKTOR …Því X er ekki nóg!! Þetta þykir gríðarlega gott stöff fyrir „alla fjölskylduna“ og það eru tvær sýningar í Tjarnarbíói um helgina. 1900 kall á kjaft nema kjafturinn geti setið í fangi þá þarf ekki að borga fyrir hann. Síðast þegar ég fór í sirkus var það norskur sirkus sem sýndi í tjaldi við Smáralind. Það var alvöru sirkus með sígaunum og allt, en þetta var minnir mig rétt fyrir hrun og ég las einhverja örfrétt um það síðar að sirkusinn hafi farið á hausinn í kjölfar sýninganna hér.


Hjálmar – Ég teikna stjörnu
Að lokum er það Hjálma-vísitalan (HJÁLMA) sem hækkaði snögglega um 66.6% í gær þegar nýtt lag, Ég teikna stjörnu, var gert lýðnum heyrinkunnugt. Það er af plötunni ÓRAR sem kemur von bráðar út og bætast við þann myndarlega hól af gæðaplötum sem út kemur á næstu vikum. Fréttatilkynning er svona:

Ég teikna stjörnu
Lag & texti: Þorsteinn Einarsson

Ég teiknaði stjörnu á gólfið
og risti í kross
gaf því svo koss

það er einhver móða hjá þér
og byrgir mér sýn
ég næ ei til þín

en þegar sólin sest
og rökkrið smýgur inn til mín
þá hugsa ég samt alltaf til þín

ég málaði ótal myndir
myndir af þér
og setti í gler

Hjálmar lögðu í dag af stað í tónleikaferð til Finnlands, Rússlands og Eistlands þar sem þeir koma fram á 7 tónleikum og fara í hljóðver með Jimi Tenor. Staði og stundir má sjá á heimasíðu hljómsveitarinnar. Hjálmar spila meðal annars á stórri bókakaupstefnu í Turku í Finnlandi þar sem þeir verða sérstakir fulltrúar Íslands. Textar þeirra hafa verið þýddir yfir á finnsku og verða gefnir út í textahefti og varpað á tjald undir tónleikum sveitarinnar. Í Turku spila Hjálmar einnig eina tónleika með Jukka Poika sem er einn vinsælasti tónlistarmaður Finna um þessar mundir og spilar einmitt einnig reggí.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: