Góð málefni eru endalaus

9 Okt

Það var ægilega vinalegt fólk að reyna að selja mér Gleðipinna, eða eitthvað svoleiðis, fyrir utan Hagkaup í gær. Hann kostaði þúsund kall en ég sagðist ekki tíma að kaupa hann. Leið náttúrlega frekar illa með það en harkaði af mér, enda var ég ekkert að ljúga. Ég tímdi ekki að kaupa hann. Fólkið sagði að ég gæti þurft á þessu að halda en ég sagðist vera 100% heilbrigður og þá varð fólkið ennþá meira fúlt og snéri sér að næsta kúnna.

Í alvöru, hvar endar þetta með öll þessi góðu málefni? Inni á heimabankanum mínum eru 85 Góð málefni sem ég gæti lagt inn á, frá ABC-barnahjálp til Þroskahjálpar og bak við hvert og eitt einasta er fólk sem á í ýmiskonar neyð. Ofan á þetta fargan leggjast einangruð fyrirbæri sem er verið að safna fyrir sérstaklega, veikt fólk og limlest, börn sem þurfa að komast í aðgerð pronto eða heilu landsvæðin í Afríku sem eru við það að leggjast af vegna sults og seyru.

Stundum hvarflar það auðvitað að manni að vera ekki svona andskoti sjálfselskur og taka einskonar Móðir Theresu á sterum á lífið. Skilja sitt eigið vesæla sjálf eftir heima og fara út í heim til að hjálpa þurfandi.  Eða þá að minnsta kosti að eyða, segjum, 10 þús kalli á mánuði, í vel valin góð málefni. Svona eins og millistéttin með þokkalega mikið á milli handanna gerir með sín fósturbörn í útlöndum og hvað þetta er allt. Því það er betra að gefa en þyggja og já já.

En þá hugsa ég bara, ég borga skatta, er það ekki nóg? Og mér finnst það alveg nóg og fer og eyði stórfé í eitthvað drasl eins og plötur og rótarbjór. Nei ég lýg því. Ég styrki svo sem allskonar – hjálparkarlinn og álfinn og ýmislegt fleira, segi ég til að lesendur haldi ekki að ég sé algjör rotta. Og svo gaf ég oft rónum pening, en það er reyndar helst til að komast hjá barsmíðum. Mér skilst reyndar að maður eigi ekki að gefa ógæfufólki aura heldur hreyta í það ónotum. Það gæti hugsanlega komið fólkinu á beinu brautina.

En það er ekki neitt kerfi á þessu. Það er ekki neitt kerfi á því hvað ég er góður. Ætli maður sé ekki aðeins meira góður þegar maður á einhvern pening en þegar maður er skítblankur eins og núna, svo sorrí þarna Gleðipinna fólk. Og svo er ég auðvitað langt því frá 100% heilbrigður. Bara svona 98.5%.

Eitt varðandi þetta dæmi: Afhverju er tónlistarfólk eina fólkið sem á að gefa vinnu sína fyrir góð málefni? Afhverju er aldrei neitt svona: Píparar styrkja Parkisons-samtökin eða Tannlæknar fyrir Tourette-samtökin? Öll launin þeirra í viku eða einn dag eða eitthvað færu í málefnið.

Best að hætta áður en allir fara að hata mig enn meira en orðið er. Ég veit upp á mig skömmina svo þú þarft ekkert að skamma mig.

5 svör to “Góð málefni eru endalaus”

 1. sæmundur október 9, 2011 kl. 9:09 f.h. #

  Þetta er mjög réttmætt hjá þér . Stjórnvöld ættu að sjá til þess að þessi samtök hverju nafni sem þau nefnast þyrftu ekki að ganga um betlandi.

 2. drgunni október 9, 2011 kl. 9:13 f.h. #

  Stjórnvöld? Skatturinn þyrfti þá að vera 100% til að fyrirbyggja alla neyð heimsins.

 3. Ari október 10, 2011 kl. 2:32 e.h. #

  Gefðu alla peninga þína núna annars muntu lenda í hreinsunareldinum á Hinsta Degi. Eina leiðin til að vera hólpinn!

 4. píparafrú október 12, 2011 kl. 8:39 f.h. #

  Skal ræða þetta um parkinson samtökin þegar píparinn kemur heim úr vinnu í kvöld.

 5. Kári október 17, 2011 kl. 5:18 f.h. #

  Svona fyrst þú nefndir Móður Teresu:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: