Bæjarferð

18 Mar


Á Íslandi er tilhneiging til að hæpa nýja hluti til andskotans. Svo fer allt á hausinn skömmu síðar. Búðir, veitingastaðir o.s.frv. koma inn með hvelli og renna svo í vaskinn. Við erum svo nýjungagjörn hérna á skerinu. En þetta er líka svona annars staðar, svo sem.

Og þetta er náttúrlega hið besta mál. Allir eiga að vera á tánum og þurfa að standa sig til að halda dampi. Enginn getur stólað á langlífi. Aðeins stofnanir eins og Café Mokka og Askur hafa lifað lengur en einn áratug eða svo. Jæja, jú jú, það eru fleiri: Fríða frænka og ömmm… Lífstykkjabúðin! Já og Brynja og margt fleira, ég segi það ekki.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað varð um alla beyglu-staðina sem hér spruttu upp í kringum 2000. Þá fannst manni voða sport að fá sér beyglu með einhverju gúmmilaði ofan á. Það hefur líklega ekki gengið að hafa viðurværi af því að smyrja beyglur ofan í Íslendinga.

En allavega. Þeorían er á fullu gasi sem aldrei fyrr og alltaf fullt af nýju dóti sem ég, sem vakandi neytandi og áhugamaður um drifkraft mannsandans, verð að prófa. Það safnast upp nýjir veitingastaðir sem ég hef ekki enn prófað. Grillmarkaðurinn, Snaps og þarna nepalski staðurinn á Laugarvegi, svo eitthvað sé nefnt. Ég er alltaf á leiðinni.

Mér líst mjög vel á þessa „bylgju“ sem nú virðist í gangi að varðveita og strjúka því sem gamalt er. Ég las einhvers staðar að færa ætti Hótel Borg til fyrri glæsileika. Þetta hús með sínu hóteli og veitinga- og skemmtanaaðstöðu var náttúrlega hrikaleg bylting í moldarhaugnum Reykjavík þegar það opnaði 1930. Það sama er að gerast í Austurbæjarbíói. Bíóið opnaði 1947 og var stærsti salur landsins (tæplega 800 manns í sæti). Veitingastaðurinn/ballhúsið Silfurtunglið opnaði á efri hæðinni í norðurendanum 1955 og dinerinn Austurbar fyrir neðan Silfurtunglið opnaði 1957. Bíóið virðist í góðu svingi og nú er verið að klassa Silfurtunglið upp til fyrri glæsileika. Þá er bara vonandi að einhver opni Austurbar aftur líka!

Hér á frægu myndinni að ofan situr listakonan Róska, 17 ára, og fær sér ís á nýopnuðum Austurbar 1957. Myndina tók Andrés Kolbeinsson og hér má sjá fleiri æðislegar myndir sem hann tók. Sveinn Kjarval hönnunarsnillingur sá um innréttingarnar í Austurbar og í einu horninu stóð fyrsti glymskratti landsins, af Wurlitzergerð. Menn segja að sama eintakið sé núna niður í Lucky Records á Hverfisgötu og það þótt Jón Leifs eigi að hafa stútað skrattanum með sleggju í einu af sínum frægu STEF-tengdu æðisköstum. Jón Sækó, eins og ég kalla hann.

Snorrabrautin er m.ö.o. að verða aðal gata borgarinnar því Roadhouse í gamla Ríkinu (myndbandaleigunni) er geðveikt pleis eins og allir vita.

Í þessu sambandi er auðvitað sorglega ömurlegt ef áform um að ryðja Nasa á ruslahaug sögunnar ganga eftir. Þegar Sjálfsstæðismenn gerðu salinn og opnuðu 1946 (sem Sjálfsstæðishúsið, sem er flottara nafn en Nasa, en samt ekki jafn flott nafn og Silfurtunglið, sem slær öllu við, enda komið frá Nóbelsskáldi) var kominn flottasti danssalur landsins og hann er það eiginlega ennþá. Og það sem er best er að útlitið innanhúss hefur fengið að halda sér að mestu. En  nei nei, bara moka þessu öllu á haugana og koma upp enn einu hótelinu. Ég veit ekkert hvernig þessi mál standa en vona það Besta. Það er hroðalegt menningarslys í uppsiglingu hér.

En allavega, það sem ég ætlaði að segja hérna áður en ég fór að röfla svona mikið, var að ég fór í bæjarferð í gær og beint á nýja Nammibarinn á móti 22 (sem ég veit ekki hvað heitir núna). Ég var búinn að æsa krakkana upp með sögunni um að þarna væru 430 tegundir af blandi í poka. Staðurinn stóð undir væntingum (veit samt ekki hvort talan 430 standist) og það var troðið enda 50% afsl og allir í nammidagsskapi – enda laugardagar lögbundnir nammidagar.

Ég rak líka nefið inn í Heilsubúðina á horni Klapparstígs og Njálsgötu. Þangað hef ég aldrei komið inn áður út af óþarfa andúð á Sri Chimnoy og fylgismönnum hans. Ég er dálítið í heilsuvörunum núna og ég segi það satt að þetta er alveg frábær búð.  Fullt af spennandi gúmmilaði sem ég hafði ekki séð áður á Íslandi, t.d. margir drykkir frá enska gæða og „heilsu“-merkinu Fentiman’s og dúndurspennandi enskt snakk frá Tyrrells. Þarna fer ég sko aftur.

2 svör to “Bæjarferð”

  1. Elvar mars 18, 2012 kl. 1:22 e.h. #

    Ég held að 22 heiti aftur 22 í dag.

  2. Óskar P. Einarsson mars 18, 2012 kl. 11:16 e.h. #

    Mmmm, HP Sósa! 22 og Gaukurinn eru s.s. „back to normal“, vona að Grand Rokk endi eins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: