Allir eru fávitar-væðingin

17 Maí


Það er ekki er verandi lengur á Facebook, eða netinu öllu, út af þessu forsetarugli. Mér finnst jafn leiðinlegt að lesa skítkast og gullhamra um sitjandi forseta og vildi óska að fólk væri í aðeins betra jafnvægi þegar hann ber á góma. Hann gerir svo sem lítið í því sjálfur að „lægja öldurnar“ og ljóst að ef hann sigrar kosningarnar verður hann forseti þeirrar prósentu sem kaus hann, en ekki hinna. Svaka sameiningartákn, sem sé! Eða ekki: Bara með því að minnast á hann – eða sjá hann á mynd – verður stór hluti þjóðarinnar sturlaður í geðinu. Og eins og ég segi, það er ekki verandi á netinu út af þessu.

Mér finnst Þóra og Svavar fínt fólk, þetta litla sem ég hef kynnst af þeim, en mér finnst það jafnframt bjánaleg tilhugsun að kjósa Þóru til að gerast puntudúkka á feitum launum á Bessastöðum. Mér finnst þetta forsetaembætti bara asnalegt. Það er ekki einu sinni á hreinu hvað forsetinn á að gera, heldur geta þeir sjálfir bara ráðið því. Verið gróðursetjandi punt eða einskonar æðsta vald landsins sem segir stopp þegar ríkisstjórnin er með rugl. Þetta er svo kreisí.

Mér leiðist þessi upplausn og þetta endalausa svartagall. Væri alveg til í betri fíling í þjóðfélaginu en svona er þetta bara allt eftir hrun. Allt og allir eru eiginlega viðbjóður í hausnum á fólki. Það er ekki hægt að fara í þessa búð af því eigandinn er fjárglæframaður sem holaði gullkistur þjóðarinnar að innan og ekki hægt að lesa þetta blað af því eigendurnir eru blóðsugur sem nærast á lítilmagnanum. Allir á þingi eru fávitar og soramenni og bara allir allsstaðar.

Auðvitað blasir þessi „veruleiki“ hvergi við manni nema í gegnum fjölmiðla (og netið, sem er fjölmiðill) – ég verð a.m.k. hvergi var við svartagallið á götum úti. Þar er bara sólskin og fólk að gera það sem það á sér – að passa að drepast ekki.

Nýjasta nýtt í „allir eru fávitar“-„væðingunni“ er að Besti flokkurinn sé viðbjóður af því hann bjargar ekki Nasa. Þeir sem hæst láta vilja að Borgin kaupi Nasa og reki þar skemmtistað, alveg eins og borgin er með puttana í rekstri Borgarleikhússins, Hörpunnar o.s.frv. Margir eru fúlir af því að liðið í Besta skuli ekki beita sér fyrir rokkinu heldur bara bregðast við eins og hvaða annar kerfisflokkur hefði gert í þessari sitújasjón.

Það má segja að báðar „fylkingar“ hafi nokkuð til síns máls. Það er glatað og ömurlegt að frábær staðar með mikla sögu skuli leggjast af fyrir hótel og það væri skrýtin heimtufrekja fyrir hönd stuðsins að nota fé úr sameiginlegum sjóðum til að leysa úr þessu máli.

Vonandi kemst frumlegur botn í málið. Það vantar almennt meiri frumlegheit í lífið á þessu gvöðsvolaði skeri. Meiri frumlegheit og stuð – Minna svartagall og tuð, segi ég.

Annars er það helst að frétta að ég fór á Manfred Mann’s Earth Band í Háskólabíói í gærkvöldi eftir að hafa snætt úrvals borgara í Silfurtunglinu (hörkudílar í gangi, m.a. nautaborgari og bjórglas á 1.500 kr). Þetta er undarlegt progg popp og einu lögin sem ég þekkti voru þessi fjögur í restina. Manfred sjálfur er furðu hress miðað við að vera 71 árs og stökk annað slagið fram frá hljómborðsstæðunni og spilaði á syntharinn eins og gormur með hatt. Lögin voru öll svipuð, fyrst erindi viðlag erindi viðlag, svo heillangur sólókafli þar sem gítarinn og hljómborðið sólóuðu eins og berserkir en Dressman-legur söngvarinn fór og faldi sig. Á undan léku un ung-proggararnir í Eldberg, sem voru þéttir og fínir en sándið ekki alveg nógu gott.

9 svör to “Allir eru fávitar-væðingin”

 1. Gulli maí 17, 2012 kl. 11:50 f.h. #

  Netið er ekki fjölmiðill. Hinsvegar eru fjölmiðlar til á netinu; s.k. netmiðlar.

  • drgunni maí 17, 2012 kl. 4:45 e.h. #

   Allt það sem stendur á netinu er opinbert og þar af leiðandi einhvers konar fjölmiðill.

 2. Siggi Óla maí 17, 2012 kl. 3:22 e.h. #

  Vó. Þetta er það gáfulegasta sem ég hef lesið lengi!

 3. Stefán Þór Sigfinnsson maí 17, 2012 kl. 5:58 e.h. #

  Forsetinn startaði skítkastinu á sunnudaginn í stað þess að fara fram á eigin verðleikum.

  Maður neyðist hreinlega núna til að svara einræðisbrölti forsetans og 2007 fílingnum.

  Svo varðandi Nasa þá hefur Besti Flokkurinn ekki bent á neinn annan tónleikarstað af sömu stærðargráðu sem getur komið í staðin og svo sú staðreynd að 20-30% af Airwaives er köttað af með niðurrifi þess.

 4. Ari maí 17, 2012 kl. 6:39 e.h. #

  Nóg af tuðinu á netinu satt er það, maður veit hvar það er og þá hvernig á að forðast það, en hins vegar er margt á netinu sem má hafa unun af http://www.youtube.com/watch?v=W1_46IQRe5c …u see what i did der 😀

  • drgunni maí 18, 2012 kl. 8:42 f.h. #

   HVaða rugl er nú þetta!?

 5. Carlos A. Ferrer maí 18, 2012 kl. 7:06 f.h. #

  Þetta er engin væðing, kæri doktor, heldur skortur á þröskuldum. Vissulega er netið fjölmiðill alveg eins og sjónvarpið, prentmiðlarnir, plaköt, auglýsingatöflur og hvert annað veggjakrot sem hripað er á auða og aðra veggi.

  Lágkúran sem þú kvartar yfir skapast af því að menn geta óhindrað og úr leynum heimilis síns birt hvað sem er og hvernig sem er þarna fyrir opnum tjöldum og aftaníossar hverskyns dreift hróðri og óhróðri að vild.

  Þetta var ekki hægt á tímum þegar menn höfðu aðeins greinaskrif og frímerki til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þá voru þröskuldar í höndum umsjónarmanna dagblaðanna … ekki að ég sakni þeirra tíma.

 6. Hjortur Smarason (@hjortur) maí 18, 2012 kl. 11:22 f.h. #

  Svona er þetta búið að vera í heil fjögur ár, og ég tel að nákvæmlega þetta sem þú lýsir hafi fælt margt gott fólk frá því að fara í pólitík. Annars finnst mér Þóra einmitt vera langþráð breyting frá þessu og er ánægður að sjá að hún hefur ekki látið núverandi forseta draga í sig niður í hinar klassísku skotgrafir.

  Og netið er fjölmiðill – og þar með þú. En ég held okkur sé óhætt að lesa þig án þess að telja okkur vera að styrkja einhvern af „fávitunum“ 😉

 7. Þorgeir Pálsson maí 18, 2012 kl. 8:10 e.h. #

  Til fróðleiks varðandi lagalistann hjá Manfred Mann’s earth band: http://www.setlist.fm/setlist/manfred-manns-earth-band/2012/haskolabio-reykjavik-iceland-23df94f7.html

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: