Startholur grafnar

14 Sep

Það er innhrúgunartíð í aðdraganda Airwaves. Allir og amma þeirra gera sig klára í uppskeruhátíðina. Plötur dælast út og fólk fer í startholurnar (hvaðan kemur þetta orð eiginlega „startholur“? – Ég hef aldrei séð startholu).


 Ojba Rasta – Hreppstjórinn
Fyrst kemur nú plata sem maður hefur verið að bíða eftir með tilhlökkun enda hafa lögin með Ojba Rasta lofað gríðargóðu. Fyrstu diskurinn þeirra var bara að koma út, átta lög í gullfallegasta umslagi sem ég hef séð þetta árið og þótt víðar væri leitað. Ragnar Fjalar Lárusson hannaði, eftir því sem ég kemst næst. Ég hef ekki rennt plötunni yfir nema einu sinni en ég held samt að við séum að tala um alveg höggþétta plötu hérna. Skemmtilega djollí og lífrænt og í góðum fílingi. Hreppstjórinn er næsta lag í spilun. Meganæs.


 Dream Central Station – Let the rain (Wash over me)
Úr „kúl með sólgleraugu og fíla Suicide og David Lynch“-deildinni kemur hljómsveitin Dream Central Station, sem er skipuð Hallbergi Daða Hallbergssyni (Jakobínarína) og Elsu María Blöndal (Two Step Horror). Bandið hefur verið starfandi í rúmt ár, þetta er fyrsta lag „í spilun“ en plata er væntanleg í október. Hressandi.


 Jara – Hope
Hér er nýtt lag með Jöru,  fyrsta lagið af plötu sem hún er að fara að gefa út seinna í haust. „Ég er búin að vera að taka upp í Hljóðrita með Sigga Guðmunds í sumar en þar á undan var ég flakkandi um bæinn með harðan disk í vasanum að taka upp hér og þar,“ segir Jara og bætir við: „Lögin á plötunni eru alls konar. All frá flamenco-döbbi yfir í eitthvað sem hefði virkað vel í mynd eftir Dario Argento frá sjöunda áratugnum.“
Hérna er svo hægt að finna lagið og downlóda því frítt og hlusta á gömlu plötu Jöru.


Svo er það hann (þeir í) Valdimar. Nýtt lag hefur verið gjört opinbert á Gogoyoko. Það heitir Sýn og er fyrsta smákífan af plötunni Um Stund sem væntanleg er í búðir um miðjan október. Lofar góðu. Hljómsveitina Valdimar stofnaði Valdimar Guðmundsson ásamt vini sínum Ásgeiri Aðalsteinssyni árið 2009. Hægt og rólega bætust fleiri í hópinn og nú er Valdimar orðin að 6 manna hljómsveit. Auk Valdimars og Ásgeirs skipa sveitina þeir Guðlaugur Már Guðmundsson, Þorvaldur Halldórsson, Kristinn Evertsson og Högni Þorsteinsson (úr ftk).


Þá er það hann Borko sem er að koma með nýja plötu í október (er þetta í tísku?). Fyrsta lag „í spilun“ er Born to be free, sem má fá og hlusta á hjá Gogoyoko. Borko verður með gigg í Bíó Paradís á morgun (laugardag) kl. 16. Þar verður tónlistarmyndband við lagið Born to be Free frumsýnt og í kjölfar sýningarinnar ætlar Borko ásamt hljómsveit að leika nokkur lög af væntanlegri breiðskífu sem og lög af plötunni Celebrating Life sem kom út árið 2008. Myndbandið gerði myndlistamaðurinn Ingibjörg Birgisdóttir, en hún er systir Jónsa í SR og kunn af verkum sínum, bæði umslög og myndbönd fyrir Sigur Rós, múm, Seabear og Sóleyju o.fl. Aðgangseyrir er 1000 kr.

2 svör to “Startholur grafnar”

  1. Björn Friðgeir september 14, 2012 kl. 8:39 f.h. #

    Ekki von þú hafir ekki séð startholu, enda eru í dag notaðar startblokkir og svo er í enska máltækinu. En íslenskan man þegar spretthlauparar mættu á Melavöllinn og grófu smá holur í mölina til að búa til startholur til að ná góðu viðbragði

    • drgunni september 15, 2012 kl. 7:40 f.h. #

      Ah svoleiðis. Takk fyrir það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: