Uppgangur fyrir vestan

23 Okt

Skrapp í herragarðinn á Ísafirði. Þar er a.m.k. fimm stigum kaldara en í Reykjavík svo ég fékk bullandi köldu standandi í pólýester-köntríjakkafötum að reykja við skíðaskálann í brúðkaupi. Mikið hrafnaþing var í bænum og á leiðinni vestur sáum við svo stjörnubjartan himinn í almyrkri mannleysisins að ég hef aldrei séð annað eins. Við þessar aðstæður sér maður ekki bara stjörnur heldur kannski stjörnuþokur líka, eða eitthvað svona grátt sull á milli stjarnanna. Hvar er boðið upp á stjörnukíki og fræðslu um undur næturhiminsins? Ég væri mikið til í svoleiðis, enda hef ég aldrei kíkt í almennilegan stjörnukíki og veit ekkert hvað þetta stjörnudót heitir, nema í mesta lagi Karlsvagninn.

Ég reyndi að ná úr mér kölduruslinu í besta sauna Íslands, í sundlauginni í Bolungarvík. Dvaldi þar í tvo klukkutíma og kom út fjólublár og glær á víxl. Líklega hitalaus líka.

Í Ísafjarðarbíó eru komnar nýjar sýningagræjur og mikill uppgangur. Fór loksins á „frönsku myndina“ sem allir voru búnir að sjá nema við. Les Intouchebles er alveg eins og maður bjóst við og ágæt sem slík (þrjár stjörnur). Merkilegast fannst mér þó  að sjá „alvöru“ mennina á bakvið söguna í lokin. Maður hefði aldrei nennt að horfa á svona ljóta menn i heila mynd, sem segir bara það að í bíó þarf að poppa upp sannleikann með fallegum leikurum og skemmtilegri fléttu, svo einhver nenni að horfa. Líklega það sama og gerðist í Djúpinu.


Keypti kíló af steinbítsharðfisk (eða „rikklingi“ eins og stundum er sagt) hjá Finnboga, en eins og allir vita er það besti harðfiskur landsins. Nú á ég skammt fram á veturinn. Þess má geta að harðfiskurinn frá Finnboga fæst líka í Kolaportinu, í fiskbúðinni á Sundlaugavegi og víðar. Í öðrum át-tengdum fréttum má geta þess að ég fór á veitingastaðinn Húsið (hann opnaði nýlega) og fékk rosa góða villisveppasúpu og rækjusamloku. Best var þó að verðlagið í Húsinu er hagstætt, svona 20% lægra en í Rvk, enda var fullt að gera þótt það væri bara mánudagur. Svona held ég að gæði og sanngjarnt verð komi fólki langt, sbr. Saffran.


Á leiðinni heim hélt maður áfram að sjá teikn um uppganginn á Vestfjörðum. Fólk er að gera upp gamla félagsheimilið við Vatnsfjörð. Ég tók þessa mynd af pínkulitlu og ofurkrúttuðu sviðinu inn um gluggann. Hér gæti nú aldeilis allskonar skemmtilegt troðið upp enda skilst mér að það muni gerast næsta sumar. Svo er búið að setja nýja glugga í gamla kastalann á Arngerðareyri, en árum saman, eða frá því að ferðum Fagranessins var hætt þaðan, hefur kastalinn drabbast niður. Ég heyrði að einhverjir útlendingar hefðu keypt kastalann og ætluðu að byggja hann upp á næstu árum. Mjög gott mál.


Í Gervidal í Ísafirði (innsti fjörðurinn í Ísafjarðardjúpi heitir sko Ísafjörður, en bærinn Ísafjörður er við Skutulsfjörð – þetta meikar engan sens!) er svo þessi leynipottur við veginn. Þar fengum við okkur frábært fótabað í stillunni. Alveg magnað allt saman. Vestfirðir best!

6 svör to “Uppgangur fyrir vestan”

 1. Ásthildur Cesil Þórðardóttir október 23, 2012 kl. 11:21 f.h. #

  Flott færsla hjá þér Doktor. Satt er að fiskurinn hjá Finnboga er sælgæti, en það var lúða sem var kölluð rykklingur hér í denn, fæst ekki lengur því miður því það yrði alltof dýrt. Hef gaman af að lesa Vestfirskar hugleiðingar frá þér. Takk fyrir mig.

  • drgunni október 23, 2012 kl. 4:13 e.h. #

   Nú er Rikklingur hert lúða? Aldrei hef ég smakkað það. Já og takk fyrir hrós – maður kemur með stútfull batteríin heim í flatneskjuna hér.

 2. Brynjar október 23, 2012 kl. 5:51 e.h. #

  Sæll. Góður pistinn – en ein ábending. Bolvíkingar búa Í Bolungarvík eins og Súðvíkingar Í Súðavík. Hið sama er að segja um þá sem eru Í Reykjavík – ég hef amk ekki enn hitt þann mann sem segist búa Á Reykjavík!

  • drgunni október 23, 2012 kl. 6:38 e.h. #

   Lagfærur framundan

 3. Eggert október 24, 2012 kl. 10:08 f.h. #

  Tékkaðu á snillingunum hérna: http://www.stjornufraedi.is/ varðandi himingeiminn.

 4. Ylfa Mist Helgadóttir október 24, 2012 kl. 2:00 e.h. #

  Ég ætla ekkert að leiðrétta þig. Bara þakka fyrir komuna og minna þig á að þú borðaðir líka vöfflur á Café Ylfu. Ekki vanþakka þá dásemd!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: