Ljúfsturlaður dagur á Airwaves

3 Nóv


Þetta óveður í gær var nú algjört met. Helvíti skemmtilegt krydd í Airwaves nema maður hafi slasað sig – þá var þetta bara ekkert fyndið. Merkilegt hvað allir fara samt strax að glotta og hlæja þegar maður segir þeim að einhver hafi fokið. Forsíðumynd Fbl í dag eftir GVA er gjörsamlega geðveik og toppar photosjoppið af hvalnum.


Aðalstuð dagsins var að rokka Bókabúð Máls og menningar í útgáfuteiti Stuð vors lands. Það hófst með góðu doktoragríni þar sem Jakob Frímann Magnússon veitti mér doktorsnafnbótina aftur, og meira en það: Nú er ég heiðursdoktor. Þá veistu það! Eftir doktorsgrínið tókum við lagið Hörkuflykki sem syntaband Jakobs The Magnetics flutti snemma á 9. áratugnum. Það þótti við hæfi miðað við stærð stuðrantsins.


Næstur kom Holy B og reif þakið næstum af kofanum. Það hefði þá verið annað húsið sem missti þak á Laugaveginum þann daginn. Við tókum Grafík-slagarann 16 og Helgi toppaði gjörsamlega giggið strax í öðru lagi með því að ganga alla leið í stuðinu.


Eða það hélt maður þangað til Felix kom og tók Útihátíð Greifanna í gríðarlegu pönki enda æfingar á laginu í lágmarki. Ef ég hefði vitað 1987 að 25 árum síðar yrði ég að spila Greifalag í bókabúð hefði ég að öllum líkindum kálað mér!


Erlingur Björnsson tók I don’t care með okkur af tærri snilld. Lagið er eitt af sex á 6-laga plötu Thor’s Hammer (Hljóma), Umbarumbamba, sem er dýrasta plata Íslandssögunnar á safnaramarkaðinum.  Þetta er mikil föss-snilld (Gunni Þórðar hafði nýlega keypt sér fösspedala í Rín þarna 1965), frábær sixtís bílskúrs-rokkari með fokkjú texta eftir Pétur Östlund.

Nú kom Ari Eldjárn og fór með popptengd gamanmál. Það hlógu allir svo mikið að atburðurinn náðist ekki á mynd.


Ragga Gísla bylti íslenska karlalandsliðinu í stuði þegar hún kom með Grýlurnar. Því vel við hæfi að hún bylti líka þessu útgáfukarlasamsæti. Tók Sísí með okkur og Grímur þurfti að sitja til að ná flóknu bassasólói Herdísar Hallvarðs. Frábært!


Síðasti leynigestur kvöldsins var Einar Örn sem tók Purrkslögin Gluggagægir/Í augum úti með okkur. Ef hægt var að toppa það sem á undan hafði komið þá tókst það með þessu. Allir voru með gæsahúð eða fóru að grenja (held ég). Allavega ég! (Allar þessar flottu ljósmyndirnar af gigginu koma héðan af þýska vefritinu Inreykjavik.is. Svo var þetta allt tekið upp á videó og verður sett á Youtube við alfyrsta tækifæri!)

Maður dúllaði sér svo aðeins á Hörpu um kvöldið. Apparat voru næs þótt Jóa vantaði, Pétur Ben spilaði lög af nýrri plötu og var góður, Hjálmar og Jimi Tenor voru þrældöbbaðir á því með einskonar raggímetal eða ég veit ekki hvað. Samstarfsplatan þeirra kemur út snemma á næsta ári. Hápunkturinn í Hörpu í gær var þó franska bandið Shiko Shiko frá Normandie sem svoleiðis vann mann á sitt band með einskonar Amelie-pönki þar sem allt gat gerst og menn fóru hamförum. Magnað stöff.

Svo bara meiri gleði í kvöld. Þá má alls ekki missa af Dirty Projectors!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: