Þetta er allt að byrja aftur…

3 Jún

YjyxWA2u4ziDAPlTzDXRDHby3sPRBQw1fwLw9rp7zWU
„Þetta er allt að byrja aftur…“ andvarpar nú fólk því það heldur að nýja ríkisstjórnin muni steypa öllu í gamla (góða?) 2007 farið þegar allir voru að eyða um efni fram og allt gekk út á að halda hjólum atvinnulífsins gangandi með öllum tiltækum ráðum, þeim helstum að stífla ömmu sína og láta hana sjóða ál. „Vinstri mönnum“ leiðist þetta ekki enda komnir í gamla öryggið að vera tuðandi út í horni og í kjöraðstöðuna að vera stöðugt „á móti“ og í minnihluta. Þetta er win/win.

Ég stökk á vagn bjartsýninnar (síðasti séns áður en allt sekkur í sæ eins og jarðvísindafræðingurinn  í DV var að spá) og skellti mér bæði á nýtt grill, nýjan farsíma og New York ferð. Ég var reyndar ekki að eyða um efni fram heldur hafði ég selt svo mikið af rykföllnum hljómplötum að ég hafði efni á þessu öllu. Ekki get ég þó sagt að ég hafi beinlínis spreðað úr mér lifur og lungu því ég gisti á YMCA og hef skrifað pistil um þann gistimöguleika fyrir Túrista punktur is.

Þetta var æðisleg ferð en ekkert bar beinlínis til tíðinda. Það er lífsnauðsynlegt að vera sandkorn í flæðarmáli og láta slípast til í óþekktri mannmergð. Á sama tíma sleppur maður við íslenska naflakuskið sem maður getur þó ekki verið án því við fyrsta tækifæri er maður kominn á DV eða Eyjuna að gá hvaða tittlingaskít nú er verið að velta sér upp úr. Glatað!

Ég hitti vini mína þarna úti, bæði hinn landflótta KJG og Hauk S og fór til Coney Island án þess að prófa tæki. Þar eru pylsumennirnir í Nathans með aðsetur en ég gerði þau mistök að prófa ekki djúpsteiktar froskalappir sem þeir bjóða upp á. Át tvær risastórar sneiðar af Lemon marenge (sjá mynd) á dænerunum Good Stuff Diner og Cosmic Diner (báðir góðir), prófaði loksins IHOP (ágætt), drakk ótæpilega af Starbucks, át kirsuber, vafraði stóreygður um matvörubúðir (Whole Foods á Columbus Circle er eins og hundrað Melabúðir undir einu þaki, þar fæst bæði Siggi’s skyr og Skyr.is), fór lengst inn í Brooklyn til að kynna mér alvöru soda fountain og át víðfræga pastrami samloku á Katz, en þar inni er svona seventís New York fílingur og maður er eins og rolla í fuglabjargi.

Mér sýnist ég aðallega hafa verið að ryðja í belginn á mér, en fór reyndar líka í bíó á Film Forum kl. 13:20 á mánudegi á franska gamla mynd (La traversée de Paris – alveg ágæt). Slíkt er menningarstig borgarinnar að salurinn var nánast fullur af listrænum gamlingjum svona snemma. Svo hékk ég nokkuð í bókabúðum og keypti mér nokkrar bækur (m.a. Just Kids Patti Smith, sem allir hafa verið að segja að sé svo æðisleg; Shell Shocked: My Life with the Turtles, Flo and Eddie, and Frank Zappa, etc. og Every Night’s a Saturday Night: The Rock ‘n’ Roll Life of Legendary Sax Man Bobby Keys – Nóg að gera hjá mér í sumar). Skrapp líka í Metropolitan safnið á sýninguna Punk: Chaos to Couture. Þar er búið að troða inn eftirlíkingum af þeim tveimur stöðum sem pönkið rann frá, klósettunum í CBGB’s og búð Malcolm McLarens og Vivian Westwood í London. Svo hékk þarna fullt af pönkfötum sem mér fannst svo sem ekki merkilegra en að hitta Frikka pönk á bensínstöð (sem er reyndar mjög merkilegt). 

Öss… ég er strax farinn að hlakka til næstu utanlandsferðar!

Eitt svar to “Þetta er allt að byrja aftur…”

  1. B. Manning júní 3, 2013 kl. 12:42 e.h. #

    Síðast þegar ég gisti á YMCA dó einhver á hæðinni og það var plastborði eins og í sjónvarpsþáttunum og lögregla á sólarhringsvakt í einhverja daga á eftir.

    Varð fárveikur og horfði á áramótahlaupið í Central Park út um gluggann. Epískur túr. Hef látið YMCA eiga sig þarf á eftir.

    Þetta voru jól og áramót sem ég gleymi aldrei. Það er stutt á milli allsnægta og eymdar í NY.

    Þú verður að gefa ritdóm á Bobby Keys „Sax, Drugs, Rock’n’Roll“.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: