Framtíð formata

15 Des


Júlli í Geimsteini sagði athyglisverða setningu um framtíð geisladiskaútgáfu um daginn. Hann sagði að diskar væru sjálfdauðir um leið og það hættu að fylgja geislaspilarar í nýjum bílum. Er það ekki bara tímaspursmál? Verður látið nægja að hafa usb-plögg í bílum framtíðar, eða svokallaða „vöggu“ (sem er eitthvað sem ég fíla ekki, enda á móti öllu því sem heitir Apple (þangað til ég breyti um skoðun)).

Ég er hættur að stressa mig á framtíðinni og tækiframþróun. Það sem er þægilegast mun lifa af, annað deyja en koma aftur á endanum sem retro. Útgáfa tónlistar hefur farið í gegnum ýmsar breytingar frá því vaxhólarnir (sjá að ofan) komu fram á síðustu áratugum 19. aldar. Næst komu 78 snúninga plötur og réðu ríkjum áratugum saman á 20. öldinni, bæði lög á plötum eða „verk“ á mörgum diskum saman í bindi. 45 snúningurinn kom fram um miðja fimmuna (hér nota ég áratuga-nafn sem JFM stakk upp á, að kalla áratugina sexuna, níuna o.s.frv. í stað þess að vera annað hvort að burðast með þetta óhentuga „á sjötta áratugnum“ eða hið óþjóðlega „fiftís“). LP platan slefaðist í gang stuttu síðar. Fyrstu LP plöturnar komu út á Íslandi 1960, tvær tvöfaldar plötur á Íslenzkum tónum með íslensku efni sem hafði komið út árin á undan á 78 snúninga plötum: Lög frá liðnum árum var popp, Söngvar frá Íslandi var klassík og sönglög (sjá nánar hér).

Að popparar gefi út heilsteypt listaverk á LP eða albúmi eða „langspilandi hljómplötu“ eins og Íslenzkir tónar kölluðu það er ekki nema svona 50 ára gamalt fyrirbæri. Bob Dylan og Bítlarnir og þetta lið snemma á sexunni og Hljómar fyrstir hér 1967. Hér skauta ég yfir fólk eins og Ómar, Elly, Þorvald Halldórsson og Savanna tríóið sem höfðu komið með LP plötur áður á SG hljómplötum, en falla varla inn í þetta rokksögulega LP platan-sem-listaverk konsept.

Þegar geisladiskurinn ruddi sér til rúms á áttunni og níunni fóru popparar að hrúga á diskana allskonar drasli af því þeir gátu það (höfðu nú 78 mínútur til ráðstöfunar miðað við þessar hefðbundnu sirka 40 sem LP platan bauð upp á). Nirvana-trixið að hafa langa þögn á eftir síðasta laginu sem leiddi í „falið aukalag“ varð vinsælt um tíma. (Listi af plötum með földum aukalögum). Eitthvað var gert af þessu hérlendis, en ég er of latur til að rifja það upp. Muna lesendur eftir dæmum?

Geisladiskurinn átti að vera með miklu betra sándi og alveg laus við rispur. Sigurför hans varð hins vegar frekar stutt því fljótlega var farið að tala um að gamli vinýllinn væri með miklu „hlýrra“ sándi og svo væri svo gaman að handleika vöruna og það kæmist svo mikið artvork á umslagið. Dauðahöggið var svo mp3-væðingin og síðasti naglinn í líkkistuna Spotify og annað streymi.

Fólk er þó enn að myndast með geisladiskaútgáfu enda selst ennþá slatti af diskum, þó mun minna í ár en í fyrra, skilst mér. Í ár er engin raketta a la Ásgeir Trausti og Haglél á markaðinum, en kannski nokkrir titlar sem enda í platínu (10 þúsund) og nokkrir sem fara í gull (5 þús). Mest stuð er þó farið úr útgáfunni og ljóst að platan hefur „tapað“ fyrir bókinni. Ég man nefnilega þá tíð að einu sinni voru annað hvort „bókajól“ eða „plötujól“ og nokkur rýgur á milli. Nú keppir diskurinn ekki við bókina, enda hallar til dæmis mjög á plötur í fjölmiðlaumfjöllun. Á meðan það er Kiljan fyrir bækur, heilu útvarpsþættirnir og massíf gagnrýni á bækur í öllum prentmiðlum, er algjör hending að það sé plötugagnrýni. Mogginn er reyndar eitthvað að myndast við plötugagnrýni og DV, Grapevine og Andrea Jóns er yfirmáta jákvæð á einu plötu í viku á Rás 2, en Fréttablaðið er lamað og fatlað í þessu enda hefur Mikael Torfason ritstjóri nánast óbeit á plötugagnrýni og segir eflaust að hún geti bara farið fram á bloggsíðum, sem hún getur svo sem gert, enda getur enginn neytt frjálsan fjölmiðil að gera eitthvað annað en það sem honum sýnist. 

Popparar gera albúm þrátt fyrir skerta umfjöllun og tækniframfærir, t.d. ég sjálfur og vinir mínir með hina frábæru (barna)plötu Alheimurinn! (Fjórar stjörnur í Mogganum!) Við Heiða munum árita og spila í dag kl. 13 í Hagkaup, Smáralind og svo kl. 15 í Skífunni, Kringlunni. Maður er samt að spá hvort maður eigi eftir að gera svo margar LP plötur í viðbót. Kannski maður komi bara með lag og lag og hendi inn videói á Youtube og voni það besta? Það eða tvöfalda konseptplötu um hagvöxt… Hvað veit maður?!

Ég veit bara að ég fíla Spotify og er að spá í að fara að kaupa mér meira af 78 snúninga plötum (besta sándið í þeim – djók! Ég heyri sáralítinn mun á sándi enda heyrnaskertur eftir áratugalanga misnotkun). Ég myndi fara í vaxhólkana ef það væri algengara að rekast á þá á fornsölum (það gerist aldrei!) en maður dettur oft á 78 sn plötur. Já, Hemmi minn.

Talandi um Hemma Gunn heitinn. Voðalega er fólk viðkvæmt fyrir því að heimili hans hafi verið „eins og geymsla“. Vinnuherbergið mitt er „eins og geymsla“ og hýbýli margra vina minna eru „eins og geymslur“ og menn bara ánægðir í því. En ég á náttúrlega svo skrýtna vini.

8 svör to “Framtíð formata”

 1. Friðrik Jónsson desember 15, 2013 kl. 6:56 f.h. #

  Keypti nýjan bíl í sumar. 3G nettenging, bluetooth, USB port, aux inntak, stafrænt gerfihnattaútvarp og rauf fyrir SD minniskort.

  Enginn geislaspilari.

  Svo getur maður keypt töluvert af vínil á Amazon og fylgja mp3 fælar með.

  RIP CD

  Kveðja frá USA

  Friðrik

 2. Einar Ingvarsson desember 15, 2013 kl. 7:05 f.h. #

  Íslenska útgáfa My Head is an Animal með Of Monsters and Men er með hidden track – Sinking Man hljómar eftir langa þögn eftir að Yellow Light lýkur. Góður pistill annars.

 3. Habib Delmecca desember 15, 2013 kl. 7:08 f.h. #

  Það er ástæða fyrir því af hverju maður rekst ekki mikið á vaxhólka í umferð..

 4. Óskar P. Einarsson desember 15, 2013 kl. 8:49 f.h. #

  Eina sem þarf er 3.5 jack í bílinn og þá er ég gúdd tú gó með hvaða formatt sem er…djöfull hefði ég nú annars verið til í að geyma margar vikur af plötusöfnum á æpod þegar ég vann í fiski öll þessi sumur, í staðin fyrir þessar heeelvítis kassettur.

  • Frambyggður desember 16, 2013 kl. 11:59 e.h. #

   Mér fundust kassetturnar ágætar. Einfalt að taka upp á þær. Maður vissi líka að 30 mín voru liðnar eftir hliðina.

 5. Hilmar Kári Hallbjörnsson desember 15, 2013 kl. 10:17 f.h. #

  Vinir vors og blóma -Æði. Þar er falið aukalag

 6. Óskar P. Einarsson desember 16, 2013 kl. 10:33 e.h. #

  Vá, þetta brotnandi gömluplötuspilara-drasl hefði verið fullkomin sena í Ghost World. Er ekki „falið“ auka“lag“ (þ.e. tal) á Abbabbabb?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: