Jólin eru vintage og retro

17 Des

Orðin vintage og retro eiga það til að flækjast fyrir fólki. En þetta er einfalt: Vintage tónlist, eða vintage jólaskraut, er gömul tónlist eða gamalt jólaskraut. Ef þú kaupir þér vintage gítar ertu t.d. að kaupa þér Gibson SG frá 1970. Retro tónlist, eða retro jólaskraut er aftur á móti ný tónlist eða nýtt jólaskraut sem er látið sánda eða líta út eins og það sé gamalt. Kaupir þú retro gítar ertu t.d. að kaupa þér glænýjan Burns gítar, sem var byrjað að framleiða aftur eftir langt hlé, því ásókn í retro hefur réttlætt það.

Jólin í mínum huga eru alltaf vintage eða retro. Fortíðin speglast í jólunum. Allt er eins í hvert skipti. Gamla jóladótið dregið fram, gamlir jólasveinar dúkka upp og sami matur og síðast á boðsstólum. Þjóðminjasafnið og jólin verða eitt. Það eina nýja eru gjafirnar. Amma og afi eru jólin. Aldnir hafa orðið og segja okkur sem yngri eru enn einu sinni frá því þegar þeir fengu epli í þetta eina skipti á árinu. Jólalögin eru út um allt og er allt saman eldgamalt stöff. Það er gríðarlega sjaldgæft að glæný jólalög slái í gegn. Þegar fólk eins og Siggi Hjálmur eða Sigga í Hjaltalín gera jólaplötur er það gegnheilt retro. Ekki misskilja mig, ég er alls ekki að kvarta. Ég tek mín jól líka vintage og retro og var t.d. ekki einn af þeim sem fékk sér svart jólatré með svörtum kúlum í góðærinu. Hvílíkur viðbjóður! Ég geng jafnvel lengra og vill hafa jólaskreytingarnar eins kaótískar og hugsast getur. Algjört stílleysi er málið með jólin.

Plötuútgáfa hófst af einhverju viti á Íslandi upp úr 1950. Eftir því sem ég kemst næst á Ingibjörg Þorbergs fyrstu útgefnu jólaplötuna, tveggja laga 78 sn frá 1954. Lögin voru Klukknahljóð og Hin fyrstu jól, lag eftir Ingibjörgu sjálfa við texta Kristjáns frá Djúpalæk. Lögin voru síðar gefin út á 45 sn plötu með þessu umslagi, sem er eins flott og allt annað frá Íslenzkir tónar útgáfunni.
613px-EXP-IM_120-A
Ingibjörg Þorbergs – Hin hinstu jól
Ingibjörg útsetti lagið líka og stjórnaði upptökum, sem sýnir nú bara hverskonar frumkvöðull hún er. Því miður var barnakórinn bara í hinu lagi (sem ég finn ekki), en hér er ljósmynd frá upptökunum:
Ingibjörg,_barnakór_og_hljómsveit
479px-Helena_Eyjólfs-12_ára
Sama ár söng Helena Eyjólfsdóttir Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt inn á 78 sn plötu. Helena var bara 12 ára. Þegar hún var sextán 1958 kom út 45 sn platan Jólasálmar, með þessum tveimur lögum og tveim öðrum að auki. Enn eitt undursamlega flott umslagið frá Íslenzkum tónum prýddi plötuna, en það voru bræðurnir Þorleifur og Oddur Þorleifssynir (hjá „Amatörverslunin ljósmyndastofa“) sem gerðu umslög Íslenzkra tóna; Þorleifur teiknaði og hannaði en Oddur tók myndirnar. Alla þessa snilld má sjá á frábærri heimasíðu ÍT á íslenska wiki.
600px-EXP-IM_58-A
hatidi
Fyrsta jóla LP platan á Íslandi kom út 1964, hin ofurklassíska Hátíð í bæ með Hauk Morthens. Platan kom út á CD 1993 og var svo endurútgefin á LP í fyrra minnir mig, af syni Hauks og nafna, en hann sat einmitt á sleða framan á upprunalega umslaginu. Haukur eldri er hins vegar framan á nýju LP útgáfunni. Ef einhvern tíma er hægt að segja „skyldueign á hvert heimili“ þá er það núna!

Sama ár, 1964, var Svavar Gests að stíga sín fyrstu spor sem útgefandi (SG hljómplötur). Hann átti eftir að vera duglegur jólaplötuútgefandi en sú fyrsta var þessi sjötomma:
SG_-_501_-_Grænt_umslag_-_A-jpeg-_72p
Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason – Hvít jól

Nú voru hjól jólalaganna farin að snúast og næstu áratugir og fram á okkar daga eru uppfullir af allskonar jólaplötum og lögum. Seventís-popparar tóku forminu fagnandi og gerðu góða hluti. Hljómaútgáfan, sem voru Gunni Þórðar og Rúnni Júl, voru dúndurhressir 1975 og ýttu þá m.a. Ðe Lónlí Blú Bojs úr vör. Þeir hentu í jólaplötuna Gleðileg jól þar sem gengið spilaði og söng m.a. þetta sem var skráð á Hljóma. Það er einmitt ein leiðin að settu jólalagamarki að syngja bara eitthvað „jólalegt“ ofan á erlent popplag (sjá: Baggalútur):
2655
Hljómar – Hvers barn er það  

Árið eftir sinnaðist fóstbræðrunum eitthvað vegna peningarugls og Hljóma-útgáfan splittaðist í tvennt, Ýmir útgáfuna sem Gunni var með og Geimstein, sem Rúnar stofnaði og er enn starfandi eins  og alkunna er. Báðar útgáfurnar komu með jólaplötur fyrir jólin 1976. Ýmir Gunnars kom með Jólastjörnur þar sem Ríó tríó, Halli og Laddi, Bjöggi og Gunnar sjálfur fluttu lögin.
335038
Gunnar Þórðarson – Grýlukvæði

Rúnar og Geimsteinn komu hins vegar með plötuna Heima jólunum á, þar sem Geimsteins-stórfjölskyldan var ræst út og Þórir hamraði inn jólastöffið í pásum frá Donnu Summer. Rúnar söng titillagið:
geimstegr
Rúnar Júlíusson – Heima jólunum á

Plís ekki fá þér svart jólatré!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: