Er Bubbi Morthens (löggiltur) hálfviti?

7 Feb

bubbi1980
Svo þessari smellamellulegu fyrirsögn sé svarað strax: Nei, Bubbi Morthens er langt í frá (löggiltur) hálfviti. Hann er einn af mestu listamönnum þjóðarinnar og það er aðdáunarvert hvernig hann segir alltaf það sem honum býr í brjósti. Hann er alltaf hreinn og beinn.

Vitleysingum hefur þó alltaf þótt gaman að reyna að klekkja á Bubba, enda er hann fyrirferðarmikill og margslunginn karakter sem hefur farið svo marga hringi að hægt er að fá aðsvif yfir því. Ég meina, maðurinn sem söng hið frábæra Rækjuraggí fyrir 34 árum að halda tónleika með erkióvininum Bó? Einhverjum gæti fundist það merki um snúning, sem það vissulega er, en auðvitað og sem betur fer þroskast og breytast menn í áranna rás, nema kannski einhverjir þverhausar sem eru alltaf jafn vitlausir. Bubbi að skjóta á Bó í gamla daga var eitthvað sem lá í loftinu, enda Bubbi að sparka niður fyrri kynslóð poppara til að byggja upp það sem síðar þróaðist í Sykurmolana og það allt. En Bó er fræðimaður í rokki og poppi og bara algjörlega upplagt að þessir tveir fræðimenn og meistarar haldi tónleika saman í dag. 

Áður fyrr vildi annar hver vitleysingur berja Bubba á böllum því hann var svo kúl og töff og gat gert usla í lókal hænsnakofanum, en nú er Bubbavarnarherinn kominn á netið og reynir að fiska fæting með því að kalla Bubba vitleysing og vindhana og svo framvegis og benda á að hann hafi svikið málstað farandverkafólks og sé orðinn góðvinur vondu ríku karlanna og eitthvað svona. Ég held maður hafi fylgst með þessu á netinu í svona 10 ár eða eitthvað, svo þetta er orðið ansi þreytt og bitlaust. Bubbi’s gotta do what Bubbi’s gotta do, ok? 

Bubbi hefur dáldið komið sér í þá stöðu að vera plaggatdrengur gamla tímans í plötuútgáfumálum. Hann reifst við pírata hjá Gísla Marteini og svo er hann í þessu viðtali við Jakob Bjarnar á Vísi. Það er rétt hjá Bubba að tími plötuútgáfu – eins og hún hefur verið sl. 60 ár eða svo – er að líða undir lok, en tímar góðrar tónlistar eru langt því frá að líða undir lok. Fólk vill enn góða tónlist eins og það vill góðar bíómyndir, gott sjónvarpsefni o.s.frv. Það er bara formatið sem er að breytast og þróast. Eins og alltaf er það hið þægilegasta sem mun sigra heiminn.

Geisladiskar í dag eru álíka eftirsóknarverðir og VHS spólur. Þetta er gömul úrelt tækni sem fólk vill ekki. Helstu pælarar eru komnir aftur í vinýl-plötur, en streymi er þægilegasta formatið og Spotify til dæmis er frábært fyrirbæri. Ég borga mína premium áskrift og hlusta á það sem ég vil. Til dæmis 45 rpm með Utangarðsmönnum akkúrat núna, enda er Bubbi í hrönnum á Spotify. Hefur væntanlega verið settur þangað inn af útgáfu- og rétthafanum Senu. „Spotify skilar engum tekjum til mín né nokkurs íslensks tónlistarmanns,“ segir Bubbi og það er súrt. Er hægt að gera eitthvað í því? Geisladiskasala mun aldrei aftur verða eins og fyrir 20 árum, svo það gagnast lítið að berja hausnum við þann stein. 

Það eru sem sé miklir óvissu- og umbrotatímar. Ekki bara í útgáfu á tónlist heldur í sjónvarpi líka. Afhverju ætti ég að borga áskrift að heilli sjónvarpsstöð ef ég get borgað fyrir þá þætti sem mig langar að sjá á Voddinu eða Netflix? Nú eða gerst samviskulaus þjófur og notað Deildu (sem ég geri auðvitað aldrei)?

Ég veit ekki hvernig þetta þróast en það er samt á hreinu að gott stöff mun halda áfram að verða til og það sem er þægilegast mun sigra heiminn.

ps. Hin stórkostlega mynd af Bubba hér að ofan er tekin í Kópavogsbíói 1980 af vini mínum trommaranum Birgi Baldurssyni.

3 svör to “Er Bubbi Morthens (löggiltur) hálfviti?”

 1. Helga febrúar 7, 2014 kl. 1:24 e.h. #

  Takk fyrir þetta! Ég hef alltaf gaman af pistlunum þínum (og ég hef líka gaman að Bubba).
  Svo eru kassetturnar líka að koma aftur, allavega cassingles eða hvað þær eru nú kallaðar. Spurning hvað þær endast lengi. Ekki eru það hljómgæðin eða þægindin sem valda því, kannski bara kúlfaktorinn. Ímyndin skiptir alltaf einhverju máli þegar kemur að tónlist og hún getur stundum verið mikilvægari en þægindin.

 2. Grillufangari febrúar 9, 2014 kl. 8:47 f.h. #

  Var þar. Smá Quiz: Er Njáll Ungi ættaður frá Íslandi, eða nánar tiltekið Skagafirði eins og ég heyrði 1 sinn en finn ekkert á gúglinu…

 3. Frambyggður febrúar 17, 2014 kl. 4:14 f.h. #

  Kassettur gátu verið nokkuð góðar. Það fást bara ekki góð tæki lengur og gömul tæki úr sér gengin.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: