Etið og hangið yfir plötum í USA

10 Apr

Ég fór til NYC í ellefta skipti á dögunum. Borgin er eins og kunnugt er höfuðborg mannkynsins. Ferðin hófst á því að Haukur S. Magnússon náði í mig á JFK og við keyrðum í myrkrinu í gegnum New Jersey til Philadeplhia, þar sem hann býr ásamt unnustu sinni Juliu. Í New Jersey eru vegasjoppur nefndar eftir mikilmennum frá fylkinu. Við stoppuðum í Thomas Edison og saman slöfruðum við í okkur skammti af Popeyes kjúklingabitum. Þetta stóðst fyllilega allar væntingar sem ég hafði til þessa skyndibita. Ég er nefnilega gamall í Popeyes hettunni eftir að við Biggi Baldurs ánetjuðumst Popeyes bitum á Bless-árunum. Þegar Popeyes var á Íslandi var nokkur hátíð í bæ en það tímabil stóð stutt.

Allavega, það þurfti að éta meira enda klukkan að nálgast miðnætti og ekki hafði ég tímt ég að kaupa eitthvað í Flugleiðum. Borgarabarinn Village Whiskey var heimsóttur hvar ég skóflaði í mig hnausþykkum borgara með einhverju agalega fínu ofan á, gott ef ekki krabbakjöti. Frönskunum var velt upp úr gæsafitu, en ég fann nú engan mun.

Daginn eftir var haldið áfram í listisemdum.  Reading Terminal market er einhver geðsjúkasti matarmarkaður sem ég hef komið í. Þar fæst sennilega allt sem hægt er að éta, m.a. súkkulaðihúðaður laukur (sem ég smakkaði ekki). Við átum allaskonar og allt var ógeðslega gott. Amish fólkið er þarna m.a. með bása, það kemur úr sveitinni, konurnar með skuplur og kallarnir með skegg (sjá: myndirnar Witness og Kingpin). Ég keypti gulrótarsafa af Amish manni sem var svo góður að ég er enn að hugsa um hann (drykkinn þ.e.a.s., ekki kallinn!).

2014-02-22 11.28.40
Hér eru Júlía og Haukur á markaðnum. Eitthvað fleira var gert þennan dag. Við fórum að hjóla, ég á peysunni enda svona 15 stiga hiti. Fólk þarna trimmar og hjólar vilt og galið meðfram Schuykill ánni og leiðinni, hana nú, er stytta af Íslendingi: Þorfinni Karlsefni e. Einar Jónsson. Ég tók enga mynd.

2014-02-22 14.35.39
Philadelphia er þekkt fyrir Philly soul músík og nokkrar poppkempur. Hér er ég við mynd af þeim. Þetta eru menn eins og Chubby Checker (Twistmaðurinn ógurlegi) og Frankie Avalon, sörfmyndakempa. Þessi veggur er rétt hjá tveimur þekktustu Philly Steak sandwich stöðum borgarinnar, þeim Pat’s King of Steaks og rasistabúllunni Geno’s steaks. Fíladelfía steiksamloka er nú ekkert svo æðisgengið fyrirbæri, þó át ég eitt stykki frá sjálfum Pat sem byrjaði á þessu 1930 og er frumkvöðullinn. Frekar bragðdauft, en eftir að ég tróð nokkrum chilibelgjum ofan í kom smá fútt í málið. Við fórum á markað og eitthvað svona gauf, en um kvöldið var komið að tónleikum með Kenye West í sjálfri spilavítisborginni Atlantic City. Pleisið er náttúrlega eins og mini Vegas og ég reyndi að komast í Boardwalk Empire fíling á bordvolkinu. Tókst nú varla þótt gaman hefði verið að sjá Atlantshafið þarna megin séð. Tróð nokkum 1$ bills í vélar, drakk eitthvað sull og svo komum við okkur fyrir í íþróttaskemmu og sáum Kenye West tónleika.
2014-02-22 20.49.06
Ég fíla Kenye. Hann er popp og artí í einum pakka. Sjóið minnti mig á Biophilíu-sjóið hennar Bjarkar, hvítklæddar mussukonur væfluðust eitthvað um og Kenye sýndi listræna tilburði. Fyrir aftan hann var pýramídi og á tímabili skottaðist einhver loðin vera með rauð augu þar um og minnti á verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur. Kenye tók spjall um hvað það væri erfitt að vera frægur og mikil vinna, hann hafði til dæmis verið heila nótt að velja besta efnið til að hafa í bolina sem hann selur á tónleikunum. „Það er frábært efni í þessu bolum!“ sagði Kenye, enda eins gott, ekki voru þeir gefnir. Ég hefði nú samt kannski keypt mér einn ef þeir hefðu verið flottari. Gaman að sjá Kenye.

Á sunnudaginn bar það helst til tíðinda að við átum geðsturlaðar samlokur á Paesano’s Philly Style – lítilli búllu með svaka röð. Magnað. Keypti bol! Svo Kínavagninn til NYC þar sem glæsiherbergi beið mín á YMCA (vönduð umfjöllun hér). Við Haukur fórum á Comedy Cellar, þar sem Louie CK byrjar alla þættina sína. Þetta er algjört færiband og alltaf fullt af túristum. Einir 5-6 standöpparar komu fram, flestir slappir með eitthvað endalaust grín um gesti staðarins, sem virtist finnast þetta ægilega fyndið. Eru einhverjir hérna frá Frakklandi?! Ég þoli ekki Frakka! O.s.frv. Frekar slappt. Allavega ekkert Mið-Ísland kvalítet. Við átum eitthvað líka og hittum auðvitað minn landflótta vin Kristinn Jón á hverjum degi. Steinn og Trausti komu svo og við dvöldum í Eplinu í 4 daga. Þeir voru alveg gaga í plötubúðunum, fóru í einar 7-8 á hverjum degi og ég lufsaðist með sem voru mistök. Ég og plötubúðir erum bara ekki saman lengur. Ég hef tekið Spotify sem leiðtoga lífs míns í músíkhlustun og dettur ekki í hug að eyða pening í einhverja forneskju.

2014-02-26 12.03.29
Hér má sjá vini mína in aksjón í einni holunni. Í staðinn fyrir að hanga yfir þessu hefði ég getað spókað mig um á Moma eða eitthvað en það er of seint að spá í því núna. Man það bara næst!

2014-02-27 13.28.38
Hér má sjá Stein fórna höndum í búðinni The Thing í Brooklyn. Þar er djökið í kassavís og hvað ofan á öðru svo það er vonlaust að skoða neitt af viti nema eyða í það nokkrum vikum. Hreinasta klikkun þessi sjoppa.

2014-03-01 14.44.04
Fóstbræðurnir Kristinn Jón og Steinn Skaptason höfðu ekki hisst í 26 ár eða síðan Kristinn yfirgaf okkur til að stunda ólöglegan innflytjanda í láglaunastarfi. Þeir þurftu mikið að ræða málin svo eðlilega urðum við Trausti eins og aukaleikarar í þessu sjói. Sem var nú allt í lagi því Kristinn og Steinn eru náttúrlega blússandi gott dæmi sem gaman var að fylgjast með. Hér eru þeir fyrir utan Sylvia’s kjúklinga í Harlem sem er ofsagott sálarfúdd dæmi. Ekki tókst að draga Kristinn með til Íslands, sem hafði þó verið helsti tilgangur ferðarinnar. Hann kemur kannski seinna! 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: