Frá Akureyri til bruna

7 Júl

2014-07-06 20.26.40
Við vorum að koma heim frá Akureyri. Við „Flatus lifir“ í Kollafirði blasti þetta við. Myndin er tekin kl. 20:26 og er því meðal fyrstu mynda af brunanum. Ég fór á milli Ruv, Visir og Mbl í leit að upplýsingum en þar var allt á rólegu nótunum og bara eitthvað gamalt þrugl í gangi. Í hverju var kviknað? Spurði á Facebook og var vísað í Moggafrétt þar sem ekkert kom fram annað en að það væri „mikill eldur í Skeifunni“ (fréttin hefur síðan verið uppfærð). Kannski má því segja að Mogginn og Facebook hafi verið fyrst með fréttirnar í sameiningu. Mogginn hefur síðan skákað öðrum fjölmiðlum í myndrænni framsetningu enda með fljúgandi myndavéladrón á sínum snærum.
2014-07-06 20.40.03
Stórbruni er auðvitað stórfengleg nýlunda á tilbreytingalausu sunnudagskvöldi (enginn fótbolti og svona) og því hópaðist múgur og margmenni á vettvang. Við fundum engin stæði svo við fórum bara heim.

Akureyri var annars stórfín að vanda þótt við höfum aldrei áður lent í svona mikilli rigningu þar. Dabbi var á  N1 móti svo maður hékk mest á vellinum hinn sperrtasti soccer dad. Gátum samt kynnt okkur nokkur mathús: Kaffi Ilmur upp í hlíð við Hafnarstræti (aðal göngugatan með Amaro í miðjunni) er eðal kaffihús. Fengum okkur vænan og fínan löns, þorsk og súpur (1.990 kr).  Taste við Standgötu er nokkuð hnakkað pleis að upplagi. Svona la la kjúklingabitar, en ágætis díll í hádeginu. Nýjasta nýtt er Símstöðin í Hafnarstræti, svona safa og heilsupleis í „anda“ bæði Gló og Lemon. Fékk fína samloku og mentaðarfullt karamellu frappótjínó. Á veggjum eru myndir af helstu snillingum þjóðarinnar, þeim Laxnesi, Björk og Megasi.
2014-07-05 12.54.37
Dýrasta átið var svo hlaðborð í 1862, sem er í Hofi – 5.900 kr. Það var hið fínasta mál, glæstir forréttir, grillað kjöt og eftirréttir.

2014-07-05 14.34.35
Að sjálfssögðu var hinn klassíski Eyjafjarðar-rúntur tekinn með skyrís með íslenskum bláberjum (besti ís í heimi) í Holtseli og Jólagarðinum. Þar er nú komið stærðar hús með versluninni Tante Gretes Bakgard sem var áður í bænum. Þar er líka Eplaskúrinn sem selur gott jömm. Til að fullkomna Jólalandið ætti að koma upp Jólabarnum sem seldi jólaöl allan ársins hring. Þá gætu karlar hangið þar á meðan konur skoðuðu jóladót (hér er um svokallaða staðalímynd að ræða).

2014-07-05 16.08.08
Við fórum í Leikfangasafnið sem er rosa skemmtilegt og uppfullt af minningum (eins og sparibauknum Trölla), átum Brynjuís í öll mál og ég keypti tvær 78 snúningaplötur með Baldri og Konna í hinni frábæru fornbúð Háaloftið, sem er einmitt sniðuglega staðsett við hliðina á Brynjuís. Akureyri var því sem áður besta útálandið (ásamt Ísafirði, auðvitað).

Eitt svar to “Frá Akureyri til bruna”

  1. Ragnar Ólafsson júlí 7, 2014 kl. 10:38 f.h. #

    Ertu ekki að meina Kaffi Ilm þegar þú talar um Kaffi List?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: