Meira fólk takk

12 Ágú

Margir væla nú undan túristaflóði. Hreinræktaðir Íslendingar þurfa jafnvel að standa í röðum á eftir skítugum túristum. Þetta vomir á öllum gatnamótum húkkandi far og eyðir ekki krónu í annað en fáránlega ferð í Bláa lónið, aka Drullupytt Satans.

Við þessa vælverja segi ég: Farið til Þorklákshafnar ef þið viljið endilega vera þar sem ekki sést sála á götunum. Ég man alveg þegar Reykjavík var eins og Þorlákshöfn. Maður fór kannski á einhverja drepleiðinlega mynd í MÍR klukkan 14 á sunnudegi, kom svo út og gekk um göturnar þar sem ekki hræða var á ferð; í mesta lagi nokkrir að rúnta niður Laugarveginn inn í bílum. Það var fjúk og doði. Það er engin eftirsjá í Íslandi fyrir túristaflóð. Alls engin. En það má náttúrlega reyna að koma böndum á átroðning í viðkvæmri náttúru og ótrúlegt að það sé ekki búið að koma einhverju skikki á það allt saman.

Ég fagna túristagerinu. Þar sem er fólk þar er líf. Maður er manns gaman. Og svo er þetta flest stórskrýtið fólk því það þarf að vera smá klikk til að nenna að koma hingað. Skrýtið er gott.

Ég legg mitt á vogarskálarnar. Tók ungt franskt par upp í á leið suður á ATP og skutlaði á flugvöllinn. Þar ætlaði það að gista um nóttina. Fólkið hefur væntanlega ekki skilið mikið eftir í þjóðarbúinu, tímdi ekki einu sinni að fara í Blúlagún. Lét þó vel af landi og þjóð þótt það hafi verið rigning og rok allan tímann sem það var hér.

Við Kristján Freyr gengum á hæsta fjall Vestfjarða í síðustu viku, Kaldbak (998 m), sem er í miklum fjallasal sem innfæddir kalla Vestfirsku alpana. Á leiðinni inn Kirkjubólsdal keyrðum við fram á franskan líffræðakennara sem við tókum umsvifalaust upp í. Reyndist hún líka ætla á Kaldbak og urðum við bara samferða. Hún var að koma til skersins í annað sinn, en hafði áður farið fjölda ferðir til Benin í Afríku og lifað á steinaldarstigi meðal innfæddra. Greinilega stórskrýtin. Hér virtist hún aðallega flengjast á fjöll og ætlaði næst að þramma um Hornstrandir. Fínt var að hafa Celine með, ræðin og skemmtileg og hægt að nota hana sem ljósmyndara þegar við Kristján stilltum okkur upp á tindinum. Svo var hún með æðislegt lífrænt hnetusnakk frá Frakklandi sem hún veitti ótæplilega af. Ég benti henni á krækiber, sem hún kannaðist vel við úr fjalllendi í Frakklandi. Ég gat æft mig í frönskunni og datt í hug að ég ætti að fara á námskeið og dusta rykið af þessu. Svo fór hún bara í tjaldið sitt á Þingeyri. Hér blása Celine og Kristján Freyr úr nös á leiðinni niður:
2014-08-07 12.57.03

Eitt svar to “Meira fólk takk”

  1. HG ágúst 12, 2014 kl. 4:44 e.h. #

    Sammála. Ég vorkenndi ungum manni um daginn sem labbaði meðfram bíltroðinni Sæbrautinni að sligast undan bakpokum á baki og bringu. Ég bauð honum far niðrí bæ enda á ömurlegum stað í borginni, við hraðbraut. Um var að ræða ungan Skota sem var nýbúinn að fara á puttanum alla leið frá Skálanesi í Seyðisfirði og til Rvk. Hann hafði verið í Skálanesi „natural reserve“ síðustu þrjú sumur við vinnu/líffræðirannsóknir vegna náms við Glasgow háskóla. Í sumar var að hann að rannsaka tengsl fuglalífs og lúpínu á svæðinu. Það var stæk svitalykt af honum og hann augljóslega smá furðufugl en hann var mjög kurteis en fyrst og fremst áhugaverður. Þegar ég kvaddi hann á KEX sagðist hann ætla að fara næst til Baska-héraðs á Spáni enda með gistingu hjá spænskum vini sínum sem hafði unnið með honum í Skálanesinu. Ég sagðist óska þess að vera jafn spontant og hann, að geta ferðast á puttanum án ferðaáætlunar. Svarið hans var að hann hefði eitt sinn verið eins, þar til hann hugsaði bara „fuck it“.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: