Áramótauppgjör 2014

31 Des

Til hamingju með að hafa þraukað enn eitt árið og vonandi verður 2015 súper geðveikt í þínu lífi. Og þá meina ég geðveikt gott en ekki þunglynt eða geðklofið. Nú eru allir og amma þeirra að gera upp árið og reyna að vera fyndnir með því að birta lista yfir allskonar svona „fáviti ársins“, „apaskurðlæknir ársins“ og svo framvegis. Þetta fer allt í þá átt að Framsóknarmenn séu geðveikir og illa meinandi fávitar nema hjá Andríki þar sem vinstri menn eru fávitarnir. Allir eru þó sammála um að fávitarnir á kommentakerfi DV séu mestu fávitarnir. Ég nenni nú eiginlega ekki að spá mikið í þessum leiðindum enda er þetta séríslenskt röfl og angandi af naflakuski. Íslensk umræða: naflakusk og þras, engin framtíðarmynd, engar gáfur, bara þras um hver sé mesti fávitinn.

Svo er ég líka svo sjálfhverfur og ætla bara að birta 10 myndir úr lífi mínu 2014. Þær sýna hversu árið var ljómandi gott.

2014-03-01 14.41.28
Í febrúar fór ég til USA. Fyrst til Philadelphia þar sem ég gisti hjá Hauki og Júlíu og fór á æsandi gigg með Kanye West í Atlantic City. Í NYC hitti ég Stein og Trausta, en Steinn var að koma til USA í fyrsta skipti. Hann hafði ekki hitt æskuvin sinn KJG í 28 ár svo það urðu eðlilega fagnaðarfundir og mikið spjallað. NYC er Borg borganna.

2014-07-06 20.35.55
Við (þ.e.a.s. fjölskyldan) fórum til Akureyris á N1 mót. Það var rigning allan tímann. Þegar við komum til baka var kveiknað í Skeifunni. Það var dularfult reykský sem blasti við okkur í Kollafirðinum. Hvað var í gangi? Fyrirspurn á Facebook svaraði mun fyrr en hefðbundnir fjölmiðlar.

2014-11-11 16.44.36
Ég fór að pæla meira í 78 snúninga plötum. Sankaði að mér slatta. Maður verður alltaf að hafa eitthvað svona í gangi til að þorna ekki upp. Skemmtilegast er að komast yfir bunka eins og þennan að ofan og renna þessu sótugu og gaurdrullugu undir nálina. Fortíðin er svo skemmtilega rykfallin og dularfull.

2014-11-04 12.12.17
Allt þetta ár höfum við verið að vinna að sjónvarpsþáttum um íslenska tónlistarsögu. Við höfum tekið ein 70 viðtöl og annað eins er framundan. Stefnan er að frumsýna næsta haust. Það eru eintómir snillingar með mér í þessu, hér eru Marínó og Þorkell sem skipa Markell Production, og Halli Sigurjóns er fjórða hjólið undir þessum súperkagga.

2014-12-11 15.43.50
Ég samdi og tók upp tónlist fyrir uppfærslu LA á Lísu í Undralandi með Þóri kenndum við Just Another Snake Cult. Frumsýnt 27. febrúar. Mikil spenna.

2014-08-07 12.30.12
Við ferðuðumst slatta innanlands. Frábæra ferð um sunnanverða Vestfirði og a.m.k. tvær góðar ferðir í Sólskinshöllina á Ísafirði. Þar að auki gengum við Kristján Freyr upp á Kaldbak í fylgd franskrar fegurðardísar.

2014-09-06 18.43.09
Fórum frábæra ferð til Amsterdam en þangað hafði ég ekki komið síðan 1984. Hér erum við Steini Sleggja frekar ógreinilegir í hjólataxa. Löglegt í Amsterdam.

2014-07-21 10.28.21
Vel má vera að Skagafjörður sé suddalegt Framsóknarbæli en ég segi nei: Stórfenglega fallegur fjörður og Sauðárkrókur er frábær bær. Hér er Birgir ásamt lókal legends í elstu búð landsins. Við gengum á Mælifell og sáum ekki rassgat vegna þoku en þó Finn Ingólfsson á leiðinni upp. Buðum auðvitað góðan daginn þótt við hefðum verið að tala illa um manninn á leiðinni norður. Eru ekki allir ágætir inn við beinið – meira að segja Finnur Ingólfsson!?

2014-09-20 13.57.25
Seinna fór ég aftur í Skagafjörð með pabba og bræðrum mínum tveimur en Oddný systir kom frá Akureyri og hitti okkur. Við vorum að skoða æskuslóðir pabba og áttum frábæra helgi. Hér er glápt innan í Goðdalakirkju.

10698478_10204297738458064_6541423740991253496_n (1)
Eins og ég hef margoft sagt er tilhugsunin um að sleppa af og til til útlanda það sem heldur manni hérna megin við svartnættið. Ísland er frábært en bein innspýting frá alheiminum er nauðsynleg. 2014 fór ég í heil þrjú skipti til útlanda, í þriðja skiptið aftur til USA í október. Flæktist í Boston og NYC en aðalmálið var að flytja fyrirlestur um íslenskt popp á Íslandsdegi í sveitum Connecticut. Það var hreinlega stórkostlega gaman. Hér má sjá mig og Snorra Helgason með svínið Abe R. Ham, sem gestgjafi okkur Gerri Griswold á ásamt fleiri skepnum.

Hellingur af öðru frábærlega skemmtilegu gerðist að auki 2014 og ég gef þessu ári tvímælalaust fjórar stjörnur af fjórum mögulegum. Stefni á að 2015 fái sömu einkun, enda mun ýmislegt frábært gerast þá: Lísa í Undralandi verður frumsýnd, heimildaþættirnir væntanlega líka, ég ætla að gefa út plötu, halda málverkasýningu, fara eins oft og ég get til útlanda, minnka á mér spikið, reynda að vera sem minnst að velta mér upp úr fávitum, vera sem minnst fáviti sjálfur og svona beisik. Svo verð ég fokking fimmtugur í október svo það er allavega eitthvað.

Gleðilegt og frábært ár!!!

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: