Plötubúðir sem ég man eftir

12 Apr

Plötubúðir eru snilld. Þegar ég var að fatta geimið var fátt meira fútt en að taka Kópavogsstrætó í bæinn og tölta á milli búða. Ég hafði aðeins fyrr farið í bæinn til að kaupa frímerki í frímerkjabúðum og Mad bækur í fornbúðum. Á þessum tíma var grundvöllur fyrir nokkrum frímerkjabúðum. Ég man eftir einni sem var þar sem Strawberries var (er?) í Lækjargötu og Magni var á Skólavörðustíg (þar sem Noodle Station er núna). Besta fornbókabúðin var á Laufásvegi nálægt MR og eigandinn frekar lítill pervert í sér miðað við suma í öðrum fornbókabúðum. Engin „óþægileg nálægð“ sem sé.

En svo tók músíkin yfir. Maður var sem grár köttur á útsölumörkuðum sem stóðu stutt yfir. Einn var haldinn í Hallveigarstöðum, líklega vor 1980. Á leiðinni mændi ég á eina kvenpönkarann í Kópavogi á þessum tíma sem var uppstríluð og flott – eins og rauðhærð Siouxsie Sioux. Á þessum tíma keypti ég aðallega litlar plötur. Það var ódýrara. Oft voru kannski 5 eða 10 litlar plötur límdar saman á útsölunum svo maður sá bara fremstu og öftustu plötuna og varð að kaupa „pakkana“ eftir því. Kannski eitthvað gott sem maður sá, en rusl á milli.

Oddný frænka mín vann í Karnabæ á Laugarvegi í sama húsi og einn fyrsti rúllustigi landsins var staðsettur. Svo var Plötuportið og Hljóðfærahúsið við hliðina á Stjörnubíói. Ég man ekki nógu vel eftir Plötuportinu en Hljóðfærahúsið var aðallega í klassík og einhverju Eurovision-legu drasli svo maður nennti lítið að vera þar.

Þegar ég fékk bítlaæði (svo sem eins og einu ári áður en ég fékk pönkæði eftir að hafa séð Fræbbblana um haustið 1979) fór ég í allar þessar búðir að reyna að finna litlar Bítlaplötur. Fann náttúrlega engar. Bláu og rauðu tvöföldu safnplöturnar urðu að duga.

Einhver keypti fyrir mig fyrstu Police plötuna í útlöndum. Mér leist ekkert á hana og fór til Oddnýjar frænku í Karnabæ og fékk henni skipt í fyrstu plötu Generation X.

Safnarabúðin var á Laugarvegi (fyrir ofan þar sem Skífan var). Man eftir einni ferð þangað þegar ég reyndi að selja Sæmundi eiganda búðarinnar gatefold plötu með Rainbow, minnir mig. Ekki man ég hvernig það kom til að ég var með Rainbow plötu en ekki hafði ég allavega áhuga á þeirri músík. Sæmundur var harður í horn að taka svo ekki fékk ég mikið fyrir þetta. Í mesta lagi að skipta í eitthvað drasl. Seinna flutti Safnarabúðin á hornið á Hverfisgötu og Frakkastíg og var þar til loka. Sonur Sæmundar tók við (við kölluðum hann alltaf Mr. Bean) og drýgði tekjurnar með sérstöku klámspóluherbergi þaðan sem maður sá ýmsa merkismenn koma út. Um 1990 þegar CD átti að vera framtíðin gat maður farið þarna og keypt óspiluð eintök af Icecross, Svanfríði og Umbarumbamba á 50 kall eða svo. Sem og ég gerði.

Fyrir nýbylgjurokkara 1979-1980 varð Fálkinn á Laugarvegi helsta athvarfið. Ásmundur í Áföngum var með puttann á púlsinum og maður beið spenntur etir útsölunum þegar Joy Division, The Fall, The Clash og félagar hríðféllu í verði. Seinna kom Grammið, fyrst á Vesturgötu. Þar var Einar Örn á útopnu að grilla í manni og þröngva inn á mann allskonar Crass og Rough Trade efni. Undursamlegt.

atensjon
Þessi auglýsing birtist í Mogganum 1982. Á þessum tíma voru menn ekkert að víla það fyrir sér að vera pönkaðir í auglýsingum. Til dæmis er ógleymanleg sjónvarpsauglýsing frá Fríðu frænku þegar búðin var kynnt svona: „Gamalt drasl á okurverði!“

Grammið flutti á Hverfisgötu í kjallarann hjá Báru „bleiku“ og þaðan á Laugarveginn, í „Gramm-portið“ þar sem Plötuportið hafði verið áður. Þetta var beint á móti Máli og menningu og er ekki lengur til. Grammið var alltaf aðalbúðin. Jens Guð og Sævar í Spilafíflum opnuð Stuð (eða Stuð-búðina) eiginlega beint á móti Gramminu en það var alltaf miklu slappari búð og maður hélt tryggð við Grammið enda fór Stuð á hausinn fljótlega. Í sama húsnæði kom síðar Plötubúðin sem Halldór Ingi var með í nokkur ár. Hann pantaði sérstaklega fyrir kúnna og komu plöturnar í pósti frá útlöndum nokkrum vikum síðar.

Grammið hætti og þetta vall einhvern veginn áfram í gegnum árin. Hljómalind varð aðal sjoppan in ðe næntís en þá var auðvitað allt komið á CD. Kiddi Kanína alltaf manískur að leyfa manni að hlusta á það nýjasta. Ég vann 1994-95 í Japis í Brautarholti með eintómum snillingum; Jóa sem stofnaði síðar 12 tóna með Lalla, Ásmundur og Stebbi á efri hæðinni og á einhverjum tíma var Guðjón Bermann þarna líka, keðjureykjandi. Skemmtilegast var þegar Magga Stína kom til að vinna í búðinni með okkur Jóa.

Í dag er nú ástandið bara nokkuð gott miðað við allt og allt. Við erum náttúrlega með fáránlega mikið af plötubúðum miðað við höfðatölu og allar frábærar. Áfram músík!

Eitt svar to “Plötubúðir sem ég man eftir”

  1. Brynjólfur Erlingsson apríl 13, 2015 kl. 7:14 f.h. #

    Ég var einmitt á fullu á menntaskólaárunum 93-97 eftir skóla að þræða þessar búðir. Fannst skemmtilegast að koma í Japis í brautarholtið og fá að hlusta á nokkra diska. Man þegar þú og Magga Stína voru þarna og talaði oft við Jóa um allskonar elektróník og þig um allskonar pönk og rokk. Maður þorði varla inn í Hljómalind af því að Kiddi var svo góður í því sem hann var að gera að hann prangaði alltaf einhverju inn á mann sem mann langaði ekki alveg í..en Hljómalind var samt æði..maður vildi fá þennan límmiða á diskana sína. Á takmörkuðum fjárráðum var ekki hægt að kaupa samt hvað sem er þannig að það var betra að fara í brautarholtið og fá bara að hlusta..og bíða svo eftir útsölunum til að ná í fjárssjóðinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: