Bjánapopp, Hamfarapopp

3 Maí

Það var nóg að gerast á alnetinu um helgina. Til dæmis konan sem heilar á sér píkuna, Gaylfi og Makrílpönk. Inn í þessar bombur kom Jón Gnarr með grein um það sem hann kallar „Bjánapopp“. Við Jón og margir fleiri (til dæmis þeir sem eru í Samtökum áhugafólks um varðveislu íslensks hamfarapopps á Facebook) deilum áhuga á því sem er kallað Outsider Music alþjóðlega en gengur yfirleitt undir nafninu Hamfarapopp á íslensku, eftir grein sem Dr. Arnar Eggert skrifaði fyrir alllöngu. „Hamfara“-popp er náttúrlega komið frá Gunnari Jökli og plötu hans Hamfarir frá 1996.

Í grein sinni lýsir Jón hvers vegna hann heillaðist af þessari tónlistartegund og kemst svo í ljósi hegðunar Hallbjörns, Leoncie og Gylfa að því að hann sé hættur með öllu að hlusta á það sem hann kallar „bjánapopp“.

Þetta fannst mér misráðið, sendi honum skeyti þar að lútanda og bauð honum náðusamlegast að ganga í Facebook-grúppuna. „BJÁNA“popp er mjög gildishlaðið orð, „bjánalegt“-popp nær kannski andanum í þessu betur, „hamfarapopp“ er ágætt, en þó kannski full gildishlaðið líka, en „outsider music“ nær þessu best – Utangarðs-tónlist. Það er nú líklega bara út af gamla bandinu hans Bubba að menn veigra sér við að nota orðið „utangarðs-tónlist“ yfir þetta á íslensku.

Nema hvað. Sprettur ekki fram Egill Helgason, sem yfirleitt er með puttann á púlsinum en ekki í þetta skipti, alveg brjálaður að Jón skuli hafa Gunnar Jökul með í þessum hópi. Sigurjón M. Egilsson og áðurnefndur Bubbi taka undir í týpísktri heilagri vandrætingu, af varla minna offorsi en Talíbanar yfir skrípómynd. Allir þrír virðast halda að Jón sé illmenni sem flissar og hlær yfir greyjum sem eru að reyna að búa til tónlist – að allur hans fílingur fyrir músíkinni sé nasty. Helvítis rugl er þetta í mönnunum.

Jón Gnarr veit eins og flestir aðrir að Gunnar Jökull var snillingur á trommurnar. Saga hans er náttúrlega harmsöguleg og platan Hamfarir eins konar súrsætt kirsuber í blálokin. Það hafa verið gerðar bíómyndir eftir ómerkilegri sögum en sögu Gunnars. Mér finnst Hamfarir frábær plata vegna þess sem hún er. Gylfi hefur gert mörg skemmtileg lög og Leoncie kemur mér enn í gott skap með „Þau hittust í Kópavogi“ og mörgum fleirum. Og jafnvel barnaníðingurinn Hallbjörn átti fín lög eins og Hundurinn Húgó og Donni sjómaður.

Sumir geta aðskilið fólk og list þess og sumir geta það ekki.

Að fíla tónlist af þessari tegund er ekki nasty og það er ekki verið að hía á og niðurlægja. Ekki frekar en að fólk sem er með naive myndlist og outsider art upp á vegg hjá sér sé að gera það af mannfyrirlitningu. Sjálfum finnst mér ólærðir amatörar mjög oft gera mun ferskari hluti en skólaðir pappakassar.

Bandaríkjamaðurinn Irwin Chusid var líklega sá fyrsti til fjalla um Outsider Music, bæði í bókum og í útvarpi. Margir hafa fylgt á eftir. Meðal þeirrar snilldar sem Irwin Chusid dró upp á yfirborðið var hljómsveitin The Shaggs, og snillingar eins og Harry Partch og Wesley Willis. Listamaðurinn Moondog fellur í þennan hóp (hann á upphaflagið í Víðsjá – eru menningarvitarnir þar að hæðast af honum í hvert skipti sem lagið er spilað?). Aðrir góðir hamfarapopparar eru t.d. Lucia Pamela, Jandek og Eilert Pilarm, hinn sænski Elvisinn.

Nýjasta viðbótin er svo finnska Eurovision framlagið í ár, hljómsveitin Pertti Kurikan Nimipäivät. Þegar þeir vinna Eurovision eftir nokkrar vikur er þá Evrópa að hæðast af þeim og svívirða? Já, kannski einhverjir bjánar (það verða alltaf til bjánar), en sem betur fer (leyfir maður sér að vona) er meirihluti íbúa heimsins almennilegt fólk sem er ekki að hæðast heldur að fagna fjölbreytileikanum og hinum ýmsu tónum í regnboga lífsins.

Áfram allskonar!

7 svör to “Bjánapopp, Hamfarapopp”

 1. Lalli maí 3, 2015 kl. 8:39 e.h. #

  Svo er það Wing Han Tsang sem South Park gerðu heimsfræga. En hún er nú meira svona karókí. En hvílík snilld samt.

 2. Egill Helgason maí 3, 2015 kl. 9:04 e.h. #

  Það var í partíi heima hjá Andrési Magnússyni að þú og fleiri hlustuðuð á Hamfarir og hlóguð eins og tittlingar. Mér fannst þetta skelfing ófyndið. Þetta var sama partíið og þegar vinur minn Ásgeir Sverrisson hraktist burt af því hann hafði náð í rafmagnsgítar og var að spila sóló. Þá ríkti enn ákveðin andúð á tónlist með gítarsólóum í vissum kreðsum og Ásgeir sem ólst up á Ritchie Blackmore varð frá að hverfa vegna þess að reiðin í hans garð var svo mikil.

  • drgunni maí 4, 2015 kl. 3:22 f.h. #

   Þetta var 1995 og ég var ömurlegur hrokagikkur. Við skulum nú vona að menn þroskist eitthvað á 20 árum. Ég man ekki eftir gítarsólói Ásgeirs en ég man að hann lyfti mér upp og henti mér síðan út eftir að ég í hroka mínum hafði ekki nennt að ná í glas handa honum. Gott partí. En það er satt, gítarsóló voru ekki mikils metin. Ég hataði líka einu sinni sándið í hammond-orgeli. En nú er þetta allt breytt. Gamli karlinn orðinn meyr og sér heiminn í réttu(?) ljósi.

 3. Scipio Africanus maí 3, 2015 kl. 9:17 e.h. #

  Hún hefði mátt heila á sér heilann.

 4. Óskar P. Einarsson maí 4, 2015 kl. 11:07 f.h. #

  Ekki má gleyma meistara Gissuri Birni Eiríkssyni, hann var nú alltaf „átsædaralegastur“ af þessum fámenna hópi á Íslandi. Djöfull er þessi Y. Bhekhirst líka magnaður…

 5. Birgir maí 4, 2015 kl. 3:49 e.h. #

  Risastór + fyrir að minnast á Moondog. Gaman að enn skuli einhverjir minnast gamla víkingsins. Hann var mikill snillingur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: