Höfundur Hvítu máva drukknaði

8 Jún

bjornbragi
Í gær var Sjómannadagurinn og því heyrði maður auðkennislag Helenar Eyjólfsdóttur, Hvítu mávar, allnokkuð í útvarpinu. Lagið kom fyrst út árið 1959 á 4-laga lítilli plötu með Helenu sem Íslenzkir tónar gaf út – Helena Eyjólfsdóttir syngur metsölulögin frá Evrópu. Lagið er eftir Walter Lange, líklega vinsæll evrópskur vals (sem ég nenni ekki að fletta upp), en textann gerði Björn Bragi Magnússon. Hann gerði líka textann við tvö önnur lög á þessari plötu og átti nokkra aðra söngtexta á þessum árum (hann er til að mynda skrifaður fyrir Skapta ÓIafs-smellinum Allt á floti ásamt Gunnari Reyni Sveinssyni og Jóni Sigurðssyni). Hvítu mávar er hans þekktasti texti.

Lagið lifir von úr viti. Helena syngur þetta æðislega en textinn er líka góður. Setningin „Ég vil að þú komir og kyssir, kvíðan úr hjarta mér“ er sterk. Kannski var þetta í fyrsta skipti sem sungið var um kvíða í íslensku popplagi. Ekki sérlega vinsælt yrkisefni enda allir svo inn í sig og það mátti ekki tala um tilfinningar á þessum tíma. Tilfininingalíf landans var hulin bók, ekkert upp á borðum nema grímur en bakvið glansmyndina grasseraði allskonar viðbjóður, sbr. meðferð á krökkum á stofnunum. Blessunarlega er annað upp á teningnum í dag, eins og til dæmis þessi flotti pistill eftir Jóhann Óla Eiðsson ber vitni. Við erum ekkert nema tilfinningar og ekki sniðugt að loka þær inn í skáp.

En hver var þessi Björn Bragi, höfundur Hvítu máva? Þessi strákur hefur lengi vakið hjá mér áhuga af því örlög hans urðu svo hefí. Hann drukknaði þegar hann var 23 ára, að því virðist í tvöfaldri sjálfsmorðs-ferð. Ég tek það fram að ég veit ekkert um málið. Ég dreg bara mínar ályktanir af gömlum blaðagreinum. Ég hef aldrei talað við neinn sem þekkti Björn og gæti varpað ljósi á málið. Helena veit ekki neitt og kom af fjöllum þegar ég spurði hana að þessu.

Björn Bragi var prentari og dútlaði við ljóðagerð. Hann var sonur Magnúsar Ástmarssonar, forstjóra Gutenberg og vann í prentsmiðjunni eftir nám. Það komu tvær ljóðabækur út eftir hann: Hófatak 1956 og Dögg í grasi 1958. Oftast orti Björn Bragi í bundnu máli en stundum abstrakt, eins og til dæmis í þessu dapurlega kvæði:

Allt líf mitt
hef ég leitað þín gleði,
en aldrei fundið þig.
Aðeins eitt andartak
hefur ásýnd þín birzt mér
þegar sorg mín varð til.

Það var í maí 1963 sem ógæfan brast á. Björn Bragi og Jón Björnsson, tvítugur skristofumaður, stálu neglulausri trillu (negla skilst mér að sé einskonar tappi í botni báta, sé neglan ekki á sínum stað lekur smám saman inn á bátinn þar til hann sekkur), hentu stýrinu í land og sigldu frá landi. Hver var pælingin? Sjálfsmorðsferð? Voru þeir orðnir fullsaddir á að geta ekki opinberað samkynhneigð sína og ást og tóku því til þessara ráða? Eða voru þetta bara tveir listrænir strákar á megabömmer yfir lífinu  og engin samkynhneigð í kortunum?

Þeir virðast ekki hafa verið í ölæði því svona er lýsingin á ferðum þeirra fyrr um kvöldið: Jón hafði nýlega fengið sér herbergi til afnota annars staðar í Reykjavík, en síðar kom í l’jós, að hann fór ekki þangað. Sömu nótt varð heimafólk í Granaskjóli 26 vart við heimsökn til Björns Braga. Björn fór út með gestinum og hefur ekki sézt síðan, en enginn í húsinu vissi hver komumaður var. Þeir Jón og Björn voru félagar og er því talið sennilegt, að það hafi verið Jón, sem kom að vitja hans.

2mennhverfa

Leitað var næstu vikur.

týndir ennúlpa

Eftir mikla leit um mánuði eftir að strákarnir sigldu út á haf fundust líkin sjóreknir í fjörum nálægt borginni. Björn var jarðaður 21. júní 1963. Rósa B. Blöndals, skáld og kennari, skrifaði mikla minningargrein í Alþýðublaðið, sem fjallaði aðallega um ljóð Björns. Eitt og annað má þó lesa á milli lína.

Þá veistu það næst þegar þú heyrir Hvítu mávana.

Viðbót: Walter Lance mun vera dulnefni hjá Gustav Winckler, en hér er hann að syngja Hvide mage.

12 svör to “Höfundur Hvítu máva drukknaði”

 1. fridrik júní 8, 2015 kl. 8:05 f.h. #

  Takk fyrir að rifja upp þessa örlagasögu, Gunni. Það er löngu tímabært að setja saman sögu íslenskra textahöfunda, meðan enn er til fólk sem man og þekkti þá fyrstu. Hér má segja að þú sért kominn af stað í það verkefni.

  • drgunni júní 8, 2015 kl. 8:31 f.h. #

   Hmmm já. Þú segir nokkuð 😉

 2. Magnús Þór Hafsteinsson júní 8, 2015 kl. 9:19 f.h. #

  Þessi hvarf líka sviplega og má lesa fréttir af því á timarit.is. Í ljósi þess er frekar meinlegt að skoða þetta myndband, það er eins og menn hafi á þeim tíma verið að skemmta sér við að grínast með mann sem ekki gekk heill til skógar. Ekki löngu eftir þennan þátt hvarf hann. En enn er hlegið en mér finnst þetta ekki sniðugt eftir að ég las um endalok hans. https://www.youtube.com/watch?v=ZlUIcdeY2cs

 3. Magnús Þór Hafsteinsson júní 8, 2015 kl. 9:30 f.h. #

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3356349

 4. Magnús Þór Hafsteinsson júní 8, 2015 kl. 9:34 f.h. #

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3057865

  • drgunni júní 8, 2015 kl. 9:46 f.h. #

   Þetta er svakalegt að sjá. Ætli viðtalið við Helga P hafi triggerað einhverja minnimáttarkennd og þunglyndi sem hafi rekið hann út í þetta? Samt mjög skemmtilegt viðtal og karlinn reffilegur. „Gárungarnir“ hafa eflaust komist í feit.

 5. Magnús Þór Hafsteinsson júní 8, 2015 kl. 7:34 e.h. #

  Veit ekki hvað gerðist. Var Helgi P að taka viðtal við andlega veikan mann af því þetta þótti svo fyndið? Kannski lenti Gunnlaugur bara í heiftarlegu einelti eftir þetta viðtal í sjónvarpinu og var ekki sterkur á svellinu til að taka slíku? Hvað um það þá virðist þetta hafa endað í harmleik fyrir þennan sveitamann austan úr Vopnafirði. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3573886

 6. Ingólfur Arnarson júní 8, 2015 kl. 10:26 e.h. #

  „Voru þeir orðnir fullsaddir á að geta ekki opinberað samkynhneigð sína og ást og tóku því til þessara ráða? Eða voru þetta bara tveir listrænir strákar á megabömmer yfir lífinu og engin samkynhneigð í kortunum“
  Eftir því sem ég heyrði og skynjaði á þessum tíma (BBM var frændi minn), þá væri svarið hið síðara, allavega var Björn Bragi listamaður, veit ekkert um hinn. BB eignaðist á sínu stutta lífshlaupi dóttur og á afabarn sem er nafni hans og líka listamaður á sinn hátt.

  • drgunni júní 9, 2015 kl. 5:26 f.h. #

   Björn Bragi uppistandari og sjónvarpsmaður? Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Já, eins og ég segi þá veit ég ekkert um þennan harmdauða, en ég gat samt ekki lesið úr blaðafregnum frá þessum tíma að þetta hafi verið eitthvað fylliríis-rugl.

 7. annatheodora júní 20, 2015 kl. 7:21 e.h. #

  Takk fyrir þessa umfjöllun um Björn Braga. Hún vekur upp margar minningar.

  Systir hans var jafnaldra mín og bekkjarsystir í Melaskóla og Hagaskóla og við vorum mjög góðar vinkonur á þeim árum. Hún var mjög góður penni, besti penninn í bekknum, en ég held að hún hafi aldrei alið með sér neina rithöfundadrauma.

  Ég vissi að hún hefði átt eldri bróður sem hafði gefið út ljóðabækur og verið ákveðin vonarstjarna, getið sér orð þrátt fyrir ungan aldur, en að hann hefði drukknað kornungur ásamt félaga sínum. Þegar bátur sökk undan þeim í Skerjafirðinum. Ekki hafði ég barnið/unglingurinn hugmynd um að þetta hefði verið sjálfsmorðsferð svo þú ert að segja mér fréttir.

  En ég þekkti heimilislífið í Granaskjólinu mjög vel á þessum árum. Ég skynjaði að hörmulegur dauðdagi þessa pilts (og sennilega líka erfið veikindi og örorka heimilisföðurins, Magnúsar) hreinlega varpaði bleksvörtum skugga á fjölskylduna. Þau voru öll mjög markeruð, móðirin og systkinahópurinn. Eins og málið væri bara að draga fram lífið frá degi til dags. Og fleiri alvarleg áföll áttu svo eftir að ríða yfir á mörgum næstu árum; ég hef aldrei vitað fjölskyldu sem hefur þurft að þola önnur eins áföll.

  • drgunni júní 20, 2015 kl. 11:01 e.h. #

   Takk fyrir þetta innlegg. Ég hef nú svo sem ekkert fyrir mér í því hvort þetta hafi verið sjálfsmorðsferð – getur alveg eins hafa verið fylliríis-rugl sem endaði svona hörmulega.

 8. lexia888 ágúst 12, 2015 kl. 9:50 f.h. #

  Þakka þér Dr. Gunni fyrir að vekja athygli á einstökum listamanni Birni Braga Magnússyni, prentara, skáli og dægurlagatextahöfundi, sem lést ásamt vini sínum, sem var unnusti systur hans, 23 ára og skildi eftir sig ótrúlega glæsilegt safn af dægurlagatextum, sem voru á hvers manns vörum og stöðugt spilaðir í óskalagaþáttum hér á árum áður.

  Sennilega er kominn tími til að halda minningartónleika um Björn Braga með verkum hans.

  Mér þykir hins vegar afar leitt hvernig þú af algjöru þekkingarleysi „bullar“ um þennan einstaka hæfileikamann – og aðrir sem ekkert þekkja til, halda bullinu áfram. Þín skrif hér eru fyrst og fremst þinn eiginn skáldskapur, þinn eigin uppspuni og hefur alls ekkert með Björn Braga að gera – segja auðvitað miklu meira um þig.

  Björn Bragi eignaðist ungur dóttur, rétt áður en hann varð 19 ára, fékk ekki að eiga stóru ástina sína í lífinu og endurspeglast ástarsorgin … þessi staða hins unga ástfangna, orðhaga skálds augljóslega í textum hans.. Slík staða hefur oft orðið að uppsprettu þekktustu ástarljóða heimsins.

  Síðasta sjóferðin þeirra vinanna var fyrst og fremst hörmulegt slys ungra manna sem datt ekki í hug annað en að þeir ættu allt lífið framundan.

  Ég sé á skrifum Önnu Teódóru að hún þekkir vel til og tek ég undir með henni „Ég hef aldrei vitað fjölskyldu sem hefur þurft að þola önnur eins áföll“. Höfum í huga að það eru margir á lífi sem þekkja þessa sögu vel.

  Dr. Gunni! … Þá er komið að minningartónleikunum um Björn Braga og alla dægurlagatextana hans sem hafa iljað þjóðinni um áratugaskeið 🙂 …

  Ég var að opna Facebook síðu um Björn Braga … þar sem safnað verður saman textunum hans … en eins og þú veist áreiðanlega þá sungu Jón Sigurðsson og Skapti Ólafsson marga af textunum hans.

  Bestu kveðjur
  Valgerður Snæland Jónsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: