Æðisleg Bítlabók á íslensku!

19 Okt

12032775_440585056128767_2088272334476160665_o
Líklega hafa ekki komið út fleiri bækur um nokkra aðra hljómsveit en Bítlana. Ég er búinn að lesa þær nokkrar og misjafnar, en sú allra allra besta er eftir Bretann Mark Lewisohn – The Beatles Tune In. Bókin er „ekki nema“ 946 blaðsíður (reyndar kom út þrefalt lengri útgáfa í takmörkuðu upplagi – manni sundlar bara). Það klikkaðasta við The Beatles Tune In er að hún endar þegar Bítlarnir eru að taka upp fyrsta smáskífuna sína fyrir Parlophone, svo fólk getur rétt ímyndað sér hverskonar smáatriðaveislu er boðið upp á. Svo er þetta algjörlega frábær lestur og aldrei sem manni fer að leiðast. Ekki samt reyna að lesa bókina ef þú hatar Bítlanna!

Mark, sem er mesti Bítlafræðingur dagsins í dag, ætlar svo að koma með tvö bindi í viðbót um okkar menn. Annað bindi áætlar hann að komi árið 2020 og síðasta bindi 2028 þegar hann verður sjötugur. Ég vona að bæði bindin verði til í þrefallt lengri útgáfum því ég ætla sko ekki að missa af þeim.

Nú berast þau stórtíðindi að bókin sé að koma út á íslensku. Þar að auki er Mark á leiðinni á klakann og ætlar að ræða innihaldið og taka við spurningum. Á okkar ylhýra heitir bókin Bítlarnir telja í og á sér heimasíðu og Facebook síðu. Vika er í að bókin komi ylvolg úr prenti en opinber útgáfudagur er 2. nóv. Bókin verður til sölu í öllum verslunum Eymundsson og víðar. Sá sem stendur að þessu stórvirki heitir Friðbert Elí Friðbertsson. Ég spurði hann nokkurra spurninga og hann svaraði:

„Ég hef frá því að ég var um 10 ára verið með brennandi áhuga á Bítlunum. ( Er ekki nema 33 ára í dag ). Ég hef lesið rosalega mikið af bókum og efni um þá og aflað mér mikillar þekkingar á þeim og sólóferlum þeirra allra líka. Þegar ég frétti fyrir nokkrum árum að Mark væri að skrifa sögu Bítlanna þá fannst mér þetta vera eitthvað sem yrði að koma út á íslensku. Það vill svo skemmtilega til að konan mín útskrifaðist með mastersgráðu í þýðingarfræði fyrir þremur árum og þar sem hana vantaði fleiri verkefni datt mér í hug að hún myndi þýða þessa bók. Við fengum til liðs við okkur frænda minn, Sigurð G Valgeirsson sem hefur mikla reynslu af bókaútgáfu og keyptum réttinn að þessari bók. Þessi þýðing tók hátt í tvö ár í vinnslu, yfirlestri og þess háttar þannig að jú þetta er mikil sturlun að þýða svona stóra bók og sérstaklega þar sem þetta er fyrsta bókin okkar. En við erum staðráðin í að þýða 2 og 3 líka ef þessi kemur út á sléttu eða í plús.“

Mark Lewinsohn verður á landinu í seinni hluta nóvember og mun koma fram opinberlega. Nánar auglýst síðar.

4 svör to “Æðisleg Bítlabók á íslensku!”

 1. Eysteinn Björnsson október 21, 2015 kl. 4:57 e.h. #

  Dr Gunni,

  Ég mæli eindregið með lestri á tveggja binda útgáfunni (sem er
  reyndar nær því að vera tvöföld en þreföld). Margt af því bitastæðasta
  vantar algjörlega í eins bindis útgáfuna (sem er stytting á meginverkinu).

  Lewisohn mætti gjarna fjalla aðeins meira um tónlistina sem slíka, en
  kannski finnst fólki músíkteoría bara leiðinleg. Fyrir þá sem vilja kynna
  sér betur hvernig tónagaldurinn verður til, má hiklaust mæla með tveim
  höfundum:

  Alan W. Pollack
  http://www.icce.rug.nl/~soundscapes/DATABASES/AWP/awp-alphabet.shtml

  og

  Dominic Pedler
  The Songwriting Secrets of the Beatles
  (fæst hjá Amazon.co.uk, Bóksölu stúdenta, og víðar)

  Pollack rannsakar hvert einast bítlalag ítarlega út frá tónfræði
  og hljómafræði, Pedler gerir það líka en verk hans er heildstæðara
  og opinberar miklu stærra samhengi. Ógleymanleg bók sem hægt
  er að lesa aftur og aftur.

  Kær kveðja,
  Eysteinn (eysteinn@boksala.is)
  https://notendur.hi.is/~eybjorn/beatles/

  • drgunni október 21, 2015 kl. 5:09 e.h. #

   Maður fær ekki þessa tvöföldu bók í dag nema á einhverju fáránlegu verði (750 pund eða eitthvað). Tékka á þessum bókum, en ég hef reyndar takmarkaðan áhuga á tónfræði og hljómafræði. Finnst það of akademískt eitthvað.

   • Eysteinn Björnsson október 21, 2015 kl. 5:50 e.h. #

    Dr Gunni

    Þakka svarið.

    Þú getur keypt mjög vel farin notuð eintök á ca. 60 pund
    hér („like new“):

    http://www.amazon.co.uk/Beatles-These-Years-Extended-Special/dp/1408704781/ref=sr_1_3?s=books&ie=UTF8&qid=1445448513&sr=1-3&keywords=beatles+tune+in

    Ég hef greinilega gert rétt í að kaupa þetta strax!

    Hljómafræði er alls ekki leiðinleg, ef þú getur fundið góðan
    stað til þess að læra grunnatriðin. Ég tók mig til og lærði
    þetta á eigin spýtur í ellinni – þetta opnar fyrir manni nýjar
    víðáttur í tónlistinni. Ég fór að hlusta á Bítlana með nýjum
    eyrum, nýju hugarfari, nýrri innsýn. Ekki snefill af akademíu,
    þvert á móti fór ég að skilja hvers vegna sum tónlist verkar
    sterkar á mig en önnur. Þetta hjálpar manni líka til að skilja
    poppið, hefur ekkert sérstaklega með klassík að gera.

    Gefðu þessu séns – þú munt ekki sjá eftir því. Ég hef vitni …
    Ómgreining á Bítallögum er besti byrjunarreiturinn.

    Ef þú hefur grundvallarþekkingu á tónskalanum, veist hvernig
    þríhljómar eru myndaðir, hvað greinir eina tóntegund frá
    annarri, og getur stautað þig áfram í nótnaskrift – þá ertu kominn hálfa leið. Lestu svo Pedler, og notaðu Bítlasíðurnar mína sem uppflettirit. Þú munt heyra alla þessa tónlist í algjörlega nýju samhengi. Akademískir poppfræðingar hafa yfirleitt engan áhuga
    á tónlist, bara menningarfræði og tískustreymi.

    Athugaðu: Pollack er ekki bók – hann er allur á netinu. Notaðu
    linkinn í fyrra póstinum.

    Kveðja
    Eysteinn
    https://notendur.hi.is/~eybjorn/beatles/

 2. drgunni október 22, 2015 kl. 4:33 f.h. #

  Kærar þakkir fyrir þetta allt saman. Ég læt vaða á expanded version. Ég sé til með hljómfræðibækurnar. Ég veit ekki, kannski er ég bara svo einfaldur að mig langar ekkert endilega til að kafa ofan í galdurinn, taka hann sundur og bregða stækkunargleri á hvern hluta hans. En það er nú bara ég – ég hef alltaf verið svona!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: