Sarpur | Skoðun RSS feed for this section

Jón smákrimmi < Séra jón nauðgari

10 Ágú

Out-of-Thin-Air-police-lineup
Sá OUT OF THIN AIR í gær. Stórgóð heimildarmynd um Guðmundar- og Geirfinnsmálið. Ég hef aldrei sökkt mér djúpt í það svarthol/mál, en myndin er skýr og skorinorð og „skemmtileg“ – hélt vel og er virkilega vel gerð. Aðdáendur Making a Muderer fá hér mikið fyrir sinn snúð í lókal bakaríinu. Auðvitað er þetta allt eitt megaklúður, hvernig staðið var að málum. Ég heyrði einhvern tímann eftir Sævari Ciesielski að á fylliríum játaði hann hálfpartinn að hafa verið nálægt drápi á Guðmundi, en Geirfinn hafði hann aldrei heyrst minnst á. Þetta er eflaust eitthvað kjaftasögurugl því enginn sekur maður myndi leggja á sig það erfiði sem Sævar gerði til að fá sín mál út af borðinu.

Sævar rakst ég stundum á. Man eftir honum þegar Bless eða S.H,.Draumur var að æfa í Duus-húsi í Fischersundi og þá var hann bara fullur eða skakkur og vildi djamma með okkur. Ekkert ofbeldisrugl, en auðvitað var maður dáldið hræddur við hann. Svo þegar ég snapaði að fá að sitja í einum af köggum Ólafs Gunnarssonar með Dabba 5 ára eða svo, þá keyrðum við í Bæjarins bestu og Sævar rakst á okkur og var bara almennilegur þótt hann væri orðinn verulega sukkaður þá. Sem sé, bara hinn fínasti maður. OUT OF THIN AIR er þó meira um Erlu en Sævar og það helvíti sem á hana var dempt, nánast barn að aldri og með nýfætt barn.

Staðreyndir eru þessar: Engin lík hafa fundist. Enginn morðingi hefur fundist. Ungt fólk var beitt stjarnfræðilegu ofbeldi af fangelsishrottum Síðamúlafangelsis, sem voru ekki bara svona vegna þess tíma sem þeir lifðu í, heldur voru bara siðblindir og/eða fávitar. Það er líklega of seint að hundelta þessa ömurlegu menn uppi, þeir geta bara úldnað sig í hel og vonandi, þeirra vegna, skammast sín.

Hin staðreyndin er þessi: „Kerfið“ hleypur upp til handa og fóta til að veita barnaníðingi „uppreisn æru“ til að hann fái „sjálfssögð réttindi sín aftur“, en skellir áratugum saman skollaeyrum við bænum fólks sem á unga aldri var beitt áralöngu harðræði til að kreista út úr því játningar á einhverju sem það vissi ekkert, eða a.m.k. lítið, um. Bænum þessara fórnarlamba um endurupptöku málsins, eða „uppreisn æru“ hefur aldrei verið almennilega svarað af „Kerfinu“.

Það er ekki sama Jón eða Séra Jón? Nei, það er ekki málið. Við búum bara ennþá í Fávitalandi með fávitum og gagnslausum aumingjum sem við fávitarnir og aumingjarnir kjósum yfir okkur trekk ofan í fokking trekk.

(Myndin er komin í sýningar í Bíó Paradís)

Lífsgæði

14 Júl

Helstu kostir þess að búa á Íslandi tengjast vatni. Sundlaugarnar eru snilld og hitaveitan. Að fá kalt vatn úr krönum, sem er jafn gott og hreint og okkar, eru gæði sem fáir í heiminum í dag eiga kost á. Fátt er því sorglegra en túristi að kaupa kippu af 2L vatnsflöskum.

Vatn kólnar mishratt í húsum, eða jafnvel á milli vaska. Hjá mér er t.d. miklu hraðar að kólna á baðinu en í eldhúsinu. Ég veit ekki um þig, en ég vil hafa vatnið eins kalt og hægt er.

Þetta gætu fasteignasalar nýtt sér þegar auglýsa á íbúð til sölu. Til dæmis:

Baðherbergið er með sturtu. Búið er að endurnýja blöndunartæki í sturtu og vaski. Vaskur og vaskaskápur er nýlegt.
Vatn er ískalt strax og skrúfað er fyrir. Ferskt og gott og algjörlega saurgerlalaust.

Þessi lífsgæði hefðu að sjálfssögðu áhrif á íbúðarverðið.

Neytendamál

12 Júl

Vegna fjölda áskorana (tveggja) gefst ég upp á að hætta að blogga. 

Ég var einu sinni neytendafrömuður og fékk m.a.s. verðlaun frá Björgvini G. (leir-egg og 300þ). Okursíðan var „barn síns tíma“ og ég lagði hana niður því það var of tímafrekt að halda henni úti. Nokkrar síður á Facebook hafa tekið við og er Costco-grúppan þeirra frægust. Tilkoma Costco hefur aukið til muna áhuga (eða a.m.k. sýnileika) áhuga fólks á neytendamálum, verðsamanburði, o.s.frv.

Önnur skemmtileg FB-síða (en kannski ekki eins gagnleg) er Sögur af tollinum. Íslenski tollurinn er algjör skandall. Hér er maður böggaður yfir allskonar tittlingaskít ef maður kaupir eitthvað frá útlöndum, eða fær sendar gjafir. Þarf að sýna nótur og standa í hössli svo ríkið fái sinn vask, toll og gjöld. Segjum, kassetta sem kostaði þúsund kall kostar nú 2000 kall. Ég hef hvergi heyrt um annað eins rugl annars staðar í heiminum. Það hefur verið talað um að breyta þessu árum saman, að starfsmenn séu ekki að standa í þessu fyrir sendingar undir 15 þúsund kalli eða svo, en þetta er allt við það sama. Alveg séríslenskur fávitaháttur og blöðruskapur að ekkert gerist í þessum málum.

Þar að auki virðist algjört slembiúrtak ráða því hvaða pakkar eru teknir í meðferð. Einn daginn er það kasetta á þúsund kall í bögg, þann næsta tíu plötur frítt heim að dyrum.

Einu sinni átti svo að gera mig að formanni Strætó (eða hvað starfsheitið var). Það fór eins og það fór. Í sumar hef ég tekið strætó eftir vinnu heim til mín (leið 12). Tímatöflur standast aldrei, eða nánast aldrei. Einn föstudaginn beið ég í 50 mín á Hverfisgötu þegar ættu að hafa komið 3 tólfur. Engin kom. Ég gafst upp og tók leið 11. Það vantar sárlega svona „costco-grúppu“ fyrir þjónustu strætós. Ég nenni ekki að stofna hana.

Ég veit ekkert hver er „vondi kallinn“ í þessu Ólafur vs. Neytendasamtökin dæmi. Veit bara að ég hef aldrei séð pointið í því að vera meðlimur í þessum samtökum.

Hengjum Bubba og Dylan

16 Okt

Mikið er ég búinn að sakna þess þegar menn kýttu um há- og lágmenningu. Þessi forna skemmtun hélt ég að væri aflögð í póstmódernismanum (heitir það það ekki?), en nú blossar þetta upp á ný vegna Nóbelsverðlauna Bobs Dylans. Alvöru ljóðaunnendur segja Dylan ekkert sérstakan og að einhver óþekktur hefði átt að fá verðlaunin. Nóbelsverðlaunanefndin er búin að skíta á sig í popúlisma, segja þeir, jafnvel: Bókmenntirnar eru dauðar! Hinir segja þetta fínt, Bob sé æði og bara ekkert að þessu. Gaman að því að þessir „háu herrar“ í nefndinni skuli komnir í poppið. Besti þátturinn í dag, Lestin á Rás 1, fékk spekinga í spjall á föstudaginn sem gaman er að hlusta á

Þegar Bubbi Morthens sló í gegn 1980 fór fljótlega af stað umræða um gúanótextana, aðallega á síðum Þjóðviljans. Ég var of ungur þá til að setja mig inn í þetta og gegnheill Bubba-maður þar að auki. Árni Björnsson þjóðháttafræðingur byrjaði að kasta rýrð á Bubba. Hans gagnrýni gekk út á það að „alþýðan“ ætti betra skilið en leirburð Bubba, enda báru kommar alltaf hag alþýðunnar fyrir brjósti, eins og hafði heyrst á dagskrá Gufunnar síðan útsendingar hófust. Helvítin skulu kunna að meta þetta sinfóníugaul þótt við þurfum að troða því í eyrun á þeim í 50 ár.

Það hefur löngum verið háttur yfirstéttar að tala niðrandi um skáldskap og aðra list alþýðu, skrifaði Árni. Enda er hið alþjóðlega háðsyrði vulger, þ.e. ómerkilegur, ruddalegur, komið af latneska orðinu vulgus, almenningur.
Sömuleiðis hafa fúskarar i gervi listamanna eða listaforstjóra hvarvetna leitast við að réttlæta vonda og ljóta framleiðslu sína og gæðinga sinna með þvi, að þetta væri svo alþýðlegt eða það sem fólkið vildi. Það er að vísu rétt, að einföld og hrá framsetning verður einatt fljót til að ná skilningarvitum alls þorra manna, þótt hún skilji litið eftir. En með sliku athæfi er í rauninni
verið að fóðra alþýðu manna á andlegu trosi undir þvi yfirskini, að hún sé ekki fær um að skilja annað. Og með þessari fyrirlitningu er stuðlað að þvi að halda verkalýðnum á þvi menningarlega lágstigi, sem hann er talinn eiga skilið og þurfa til að vera mátulega auðsveip vinnudýr fyrir rikjandi stétt.
Einna þekktastir menningarböðlar af þessu tagi á siðari tímum eru hinir rússnesku Sdanoffar, listráðunautar Stalins og eftirmanna hans. En segja má, að svipað hafi i reyndinni verið upp á teningnum hvað varðar „alþýðumenningu“ í Bandarlkjunum og öðrum löndum undir áhrifavaldi þeirra. Þar eru að visu ekki stjórnskipaðir alræðisherrar að verki, heldur forheimskunarsérfræðingar fjölþjóðahringa. En vegna innbyrðis samkeppni sín í milli þurfa þeir sifellt að finna upp ný form fáfengileikans. Nýlegt dæmi af því taginu er svonefnt ræflarokk, sem á yfirborðinu er m.a.s. látið vera á móti rikjandi kerfi!! Snjallt.
Á siðustu misserum hafa svo risið upp hér á landi nýir „vinir alþýðunnar“, sem kveðast ætla að hefja hana uppúr niðurlægingu með þvi að leika og syngja fyrir hana lélega uppsuðu af þessari fjölþjóðlegu verslunarmúsik við ennþá verr gerða texta. Helsti samnefnari þessa fyrirbæris heitir vist gúanórokk.

Árni var kominn í stuð og hélt áfram í rokkhatrinu:  Það verður varla annað séð en að með ljótum og lélegum söngvum sé verið að hjálpa atvinnurekendasambandi tslands til að halda verkalýðnum i skefjum. Þvi að andleg lágkúra stuðlar að þvi að halda lífskjörum niðri. Ekki skal þvi þó trúað, að það sé visvitandi. Miklu fremur mun hér um þann reginmisskilning að ræða, að fyrirmyndin, músik-framleiðsla fjölþjóðahringanna, sé í þágu alþýðunnar!

Árna var vitaskuld mótmælt: Menn verða að skilja að þegar Bubbi syngur eina „sloruga“ setningu á balli í verstöð vinnur hann sósialismanum meira gagn en Þjóðviljinn á einu ári, skrifaði ljóðskáldið Anton Helgi Jónsson. Mér finnst að Árni Björnsson ætti að þakka fyrir að Bubbi skuli vera sósialisti, en ekki eitthvað annað. Og Árni ætti að hætta að láta poppið pirra sig. Poppið er ekki neinn sér afmarkaður heimur, það er fátt sem snertir eins daglegt lif verkafólks i landinu og einmitt poppið. Aftur á móti eru Árni og hans likar i lokuðum heimi, sem hvergi snertir líf venjulegs fólks i landinu: Árni reynir i grein sinni i Þjóðviljanum að hengja poppara, en það er ekki undarlegt að snaran skuli lenda um hálsinn á honum sjálfum.

Margir lögðu orð í belg um gúanótextana. Talað var um „snobb fyrir alþýðunni“ og passíusálmar Hallgríms Péturssonar og alþýðan í verkum Laxness voru dregin inn í umræðuna. Ljóðskáld eins og Birgir Svan Símonarson komu að máli við Bubba og buðust til að semja fyrir hann „alvöru“ texta, en karpið náði hápunkti á málfundi í Háskólanum þar sem menn tuðuðu sig í kaf og hættu svo að pæla í þessu. Sjálfur yppti  Bubbi bara öxlum yfir þrasinu enda í góðum málum með hass og kók á kantinum.

Súkkulaðiverksmiðjan yfirgefin

3 Okt

gloop
Kalli og sælgætisgerðin er stórkostleg bók (og tvær kvikmyndir). Þar fá leiðinlegir og frekir krakkar verðskuldaða ráðningu. Að lokum stendur hinn hjartahreini Kalli einn eftir. Einn hinna freku er Augustus Gloop. Í gær náðist mynd af honum yfirgefa sælgætisgerðina með skömm.

Ísland er besta land í heimi

24 Sep

Ísland er besta land í heimi samkvæmt könnun sem Bloomberg hefur birt. Fast á hælana koma Svíþjóð og Singapore. Er það ekki þar sem fólk er fangelsað fyrir að hrækja tyggjói á götuna, eða er það kannski bara flökkusaga (nenni ekki að gúggla)?

Þessar niðurstöður eru svo sem í anda þess sem maður hefur ímyndað sér. Ísland er alveg fínt sko, og það getur meira að segja orðið betra. Bara laga það sem vantar upp á: Að fólk lepji ekki dauðann úr skel, að heilbrigðiskerfið sé gott, að menntun sé á parti við það besta og það að fara í nám sé ekki þrautarganga fátæktar og basls. Síðari tíma mál eru að malbika alla þjóðvegi, tvöfalda leiðina í báðar áttir frá Rvk til Ak og Hafnar, uppræta frændhygli og kvótakónga, o.s.frv. Nú og fá nýja stjórnarskrá. Mér sýnist upplagt tækifæri til að leggja lóð á þessa vigt eftir mánuð þegar þú kýst Pírata. Eða VG eða Viðreisn ef þú endilega vilt. Mér lýst svo sem ágætlega á allt þetta dót, en best á Pírata. Mér finnst svo Sigurður Ingi ágætur líka og gamla Framsóknar-línan, ef ekki væri fyrir mafíósana sem sett hafa ljótan blett á gömlu sveitarómantíkina. Allavega allt annað en status quo, sem var reyndar fínt band í sexunni og snemma í sjöunni. En svo misstu þeir það og komu með In the army now.

Karlar í maníu drepa börn

23 Sep

Heimurinn sökkar. Það er bara staðreynd. Hvað er að? Karlar í maníu og brundfyllisgremju að karlast eitthvað, drepandi, nauðgandi, græðandi: Það er fábjánast út um allt. Sýrland, Putin, ISIS, Trump, Sýrland, flóttafólk, vesen, leiðindi, Sýrland, bögg og tráma.

Til að verða ekki sturluð tökum við flest þá (ómeðvituðu) ákvörðun að stinga hausnum í sandinn, hugsa um eitthvað annað, rassgatið á okkur sjálfum – ég lifi í kringum eigin nafla. Hvað er í sjónvarpinu? Er komin ný sería af Líf mitt er drasl? Hey, vá, nýr sími frá Iphone. Einhver sem ég hef aldrei heyrt minnst á áður léttist um 30 kg! Hvað fæ ég mörg læk á myndina mína? Ég er með ADHD. Ég er með bla bla bla.

Hvað er svo sem annað hægt að gera? Vera með mánaðarlega innborgun í (góðgerðasamtök að eigin vali). Skrifa grein (nú eða blogg). Skrifa undir rafræna kröfu um bætt ástand. Þeir, sem þetta brennur heitast á, gerast sjálfboðaliðar og mæta á staðinn til að vera hands on að bjarga því litla sem ein manneskja kemst yfir. Hetjur.

Svo eru það blessaðir poppararnir sem annað slagið eru slegnir baráttuanda og koma með heimsósómatexta innan um ælofjúið og hvað þetta er sem popparar syngja um.

„Bisness-menn þeir vilja stríð svo seljist þeirra vopn. Af þeirra völdum er heimurinn sem skíðlogandi ofn,“ söng Jóhann G. Jóhannsson heitinn með Óðmönnum alveg brjálaður 1970 (þá sökkaði heimurinn líka). Jóhann bætti við ásakandi: „Við Íslendingar erum þjóð sem þolir ekki blóð. Látum hundrað kall í sjóð og teljum okkur góð“.

Á sama tíma söng Pétur Kristjánsson heitinn „Vitskert veröld“, hið frábæra lag Einars Vilbergs.

Björgvin Halldórs var líka brjálaður á þessum tíma og fleiri. Ég nenni ekki að gúggla hvað var í gangi 1970, en ætli það hafi ekki verið þetta vanalega: Graðir karlar í maníu að apast eitthvað og börn að deyja.

Spólum þá áfram um 46 ár. Það er ekki eins og karlar í maníu séu ekki lengur að drepa börn. Við göngum því miður ekki í hvítum hippamussum og elskum hvort annað. Nei nei nei, heimurinn hefur aldrei sökkað jafn stíft (Heimurinn hefur reyndar alltaf sökkað stífast á öllum tímum). 

Tarnús Jr. er listamannsnafn Grétars Magnúsar Grétarssonar og honum er ekki sama. Hér að ofan er flott lag og ömurlegt myndband, sem þú skalt ekki horfa á nema þú sækir í að líða illa. Svona er þetta bara ennþá, því miður: Karlar í maníu að drepa börn. Lagið heitir WWIII, enda vilja margir meina að þriðja heimsstyrjöldin sé skollin á. Ég gef Tarnúsi orðið:

Lagið heitir WW III (The truth is out there) og fjallar lagið og myndbandið um flóttafólk frá Sýrlandi, ástandið þar. Myndbandið er frekar átakanlegt og hefur það birst á síðu Save Syrian Children og víðar.  Lagið hefur vakið mikla athygli á Facebook.

Upprunalega ætlaði ég ekki að semja textann um flóttafólk en það gerðist ómeðvitað, en í framhaldi tók stefnan þangað. Mér fannst lagið dáldið dramatískt og vildi gera myndband í andstæðu við dramatíkina (eða hálfgert grín myndband í léttara kanntinum), en hætti svo við það vegna þess að mér fannst ég vera að gera grín af flóttafólki. Þannig að ég fór alla leið með þá hugmynd að vekja athygli á hvað er að gerast í Sýrlandi og víðar.

Sú athygli sem ég hef fengið og skilaboð frá fólki er rosalega sterk, og í sumum tilfellum er eins og fáir viti hvað er að gerast í heiminum, eða vita það en hafa ekki tekið mikið eftir því. Fólki hryllir við myndbandinu, en mér finnst það nauðsynlegt svo almenningur sjái sannleikann.

Grétar Maggi Tarnús Jr.hefur gefið út tvær breiðskífur (Original Cowboy og My God is Mad). Hann tók sér frí frá tónlistinni 2013 og kláraði nám í Kvikmyndaskóla Íslands. Hann hefur gert fimm stuttmyndir og eina heimildarmynd „Meistari Tarnús og Hús“ sem fjallar um föður hans. Sú mynd komst inn á kvikmyndahátíðina Skjaldborg 2015. Núna er hann byrjaður aftur að semja tónlist í bland við kvikmyndagerð.